Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[12:46]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna í þessu máli sem ég tel að sé um margt mjög jákvætt og sérstaklega þessi breyting, að falla frá þessari sjálfkrafa 100 ára reglu, eða hvað maður kallar þetta, og miða þá frekar við árið 1923. Eins og kom fram í máli ráðherra munum við sjá fjöldann allan, ef óbreytt væri, af slíkum húsum falla inn á næstu árum með tilheyrandi þunga á alla stjórnsýsluna, þannig að ég tel að þetta sé mjög jákvætt.

Það er kannski eitt sem ég myndi vilja spyrja hæstv. ráðherra. Það er varðandi síðari breytinguna. Ef ég, með leyfi forseta, fæ að lesa 2. mgr. 29. gr.:

„Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.“

Ef ég skil þetta rétt þá mun svohljóðandi setning bætast þarna við:

„Stofnuninni er heimilt að setja skilyrði um slíkar framkvæmdir eða gera tillögu um friðlýsingu umrædds húss eða mannvirkis.“

Ég sé að sambærileg setning er í 30. gr. laganna eins og þau eru í dag. Ég bara velti fyrir mér hvaða skilyrði og hvort ráðherra sé með það á takteinum hvaða skilyrði þetta geta mögulega verið.