Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[13:17]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að koma aðeins upp og fylgja eftir því sem ég var að spyrjast fyrir um í andsvörum mínum og þakka ráðherra og öðrum þingmönnum fyrir þessa umræðu sem var um margt mjög góð. Ég tek undir það sem fram hefur komið að það er auðvitað heilmikið hér undir, menningarminjar, og það eru ekki bara hús þó svo að ég hafi kannski verið eilítið fastur þar sjálfur. Ég vil bara taka það fram að ég held að þetta sé mjög jákvætt skref og þarft, þ.e. þessar breytingar sem hér eru lagðar til. Það sem ég óttaðist kannski örlítið hér í upphafi og við lesturinn var hvort það væri verið að að færa Minjastofnun auknar heimildir, aukin völd og það yrði aukið flækjustig fyrir þá sem þurfa að leysa úr þessum málum. Ég nefndi sérstaklega sveitarfélögin og raunar verð ég að segja að í umsögnum sem eru fylgjandi í þessu frumvarpi þá kemur mér á óvart að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi ekki fjallað sérstaklega um þessar flækjur, sem ég kannast sjálfur við, hafandi verið fulltrúi í sveitarstjórn í tiltölulega stóru sveitarfélagi á íslenskan mælikvarða, að hafa orðið á vegi okkar á þeim tíma. Eins og ég nefndi hér í andsvari mínu, jafnvel þegar í gildi er deiliskipulag frá upphafi þessarar aldar, þá hefur engum, hvorki lóðarhafa né sveitarfélagi, tekist að liðka fyrir nauðsynlegum breytingum vegna þeirra skilyrða sem Minjastofnun hefur sett. Ég held að það sé mjög brýnt almennt að taka þetta til skoðunar í heildarendurskoðuninni á þessum málum sem ég er mjög glaður að heyra að sé fram undan hjá hæstv. ráðherra. Ég tek jafnframt undir það, eins og stendur hér erum við að miða við árið 1923, að hvort það komi til frekari skoðunar verður að ráðast. En ég tel mjög brýnt að mál um þessa heildarendurskoðun, bara vegna þessara atriða sem ég er að flagga hér sérstaklega, sé mjög brýnt að komi til þingsins sem allra fyrst og hvet ráðherra til dáða hvað það varðar.

Ég skil það mjög vel, líkt og hæstv. ráðherra nefndi í sinni framsögu, að fyrst og fremst sé þetta bráðabirgðaplagg til að létta á stjórnsýslunni því við sjáum vel hvað fram undan er, þrátt fyrir að ég hafi óttast það sjálfur við lesturinn að að hér værum við að fara að sjá auknar heimildir og meira flækjustig hjá þessari stofnun, öllum í óhag. Það er eitthvað sem ég myndi telja að við ættum að reyna að vinda ofan af frekari heldur en hitt. Ég held að ég hafi nú ekki fleiri orð um þetta en vil ljúka máli mínu með því að hvetja ráðherra til dáða og okkur þingmenn sem hér erum.