Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

meðferð sakamála.

428. mál
[13:35]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög tíðkað nú á tímum sem kannski oftar að tala illa um ríkisvaldið og segja það svifaseint og kerfið svifaseint en í því máli sem hér er til umfjöllunar held ég að það sé fyllsta ástæða til að hrósa hæstv. dómsmálaráðherra, ráðuneytinu og öllum þeim sem komið hafa að þessu máli, að undirbúningi þessa frumvarps, fyrir snör handtök eftir að ljóst varð að það var komin upp pattstaða í réttarkerfinu sem þurfti að leysa. Mér sýnist að frumvarpið sem hér er komið fram sé til þess fallið að höggva á þennan hnút. Í stuttu máli veitir það Endurupptökudómi lagaheimild til að vísa málum til Landsréttar til efnislegrar meðferðar og tryggir jafnframt að eftir atvikum verði heimilt að óska leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar.

Þetta er bara virkilega jákvætt skref sem bætir úr og skýrir réttarstöðu þeirra sem þarna eiga í hlut. Þetta tekur til sakamála, eins og augljóslega kemur fram í fyrirsögninni, og það eru allir sammála um að það verður að vera endir allrar þrætu, allar þrætur verða að eiga sér einhverja endastöð, og það er ólíðandi og óviðunandi að mál festist í réttarkerfinu með þeim hætti sem raun hefur borið vitni í þessum málum sem hér eru rakin í greinargerðinni. Ég styð þess vegna frumvarpið heils hugar og mælist til þess að það verði afgreitt.