Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[13:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og langar í framhaldinu að ræða um Reykjalund. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra sé meðvitaður um hvernig er verið að fara með starfsendurhæfingar, úrræðin sem hafa verið í boði Reykjalundar, sem ég persónulega og prívat tel vera einhverja yndislegustu endurhæfingarstöð sem við eigum og þótt víðar væri leitað. Reykjalundur hefur verið með sérstakt úrræði í formi starfsendurhæfingar fyrir ákveðinn hóp, hópinn sem hefur fallið milli skips og bryggju, kannski meira hópinn sem hæstv. ráðherra er að vísa í, þá sem eru að glíma við andlega veikleika og vanlíðan. Þetta er hópurinn sem, hvað á ég að segja, VIRK – starfsendurhæfing kærir sig ekkert um að sjá frekar en eiginlega nokkur annar. Þetta eru um 50 einstaklingar á ári sem hafa verið að fá þessa þjónustu og stór hluti af þeim kemst einmitt í 30% og allt að 70% starfshlutfall eftir þessa endurhæfingu. Nú er búið að segja upp þessum samningi við Reykjalund þannig að nú eiga þessir einstaklingar hvergi höfði sínu að að halla lengur. Það vill enginn sjá þá.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé meðvitaður um þetta og hvort hann hafi hugsað sér jafnvel að taka utan um þetta nákvæmlega núna og koma í veg fyrir að það að verði í rauninni skellt í lás, lokað fyrir þann möguleika þessa viðkvæma hóps að komast í úrræði Reykjalundar, þetta sérstaka starfsendurhæfingarúrræði sem þeir hafa haft upp á að bjóða, vegna þess að nú er sem sagt búið að segja upp samningum við Sjúkratryggingar. Þetta er ekki lengur talið vera heilbrigðismál heldur er verið að færa þetta undir hæstv. félagsmálaráðherra.(Forseti hringir.) Það er spurningin.