Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[13:53]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv.. forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég vil bara byrja á því að taka undir það með hv. þingmanni að hér er um að ræða mikilvæga þjónustu sem hefur verið veitt í langan tíma, mikilvæg reynsla í starfsfólki og mjög mikilvægt fyrir það fólk sem þarna hefur farið inn að aðstoða það við að komast út á vinnumarkaðinn. Líkt og hv. þingmaður benti á er þetta mál sem hefur heyrt undir heilbrigðisráðuneytið vegna samninga Sjúkratrygginga Íslands við Reykjalund um m.a. þetta úrræði. Eftir því sem ég kemst næst er sá samningur sem var endurnýjaður núna ekki með þessari endurhæfingu inni. Fjármagnið er það sama sem er að fara til Reykjalundar. Þar sem ég hef gert er að sjá til þess að VIRK – starfsendurhæfing sé í samtali við Reykjalund, sem ég tel mikilvægt, og er að bíða eftir því að sjá hvað komi út úr því samtali, hvort þar séu möguleikar, að þar sé hægt að mæta akkúrat þessum hópi sem hv. þingmaður er að tala um. Hvort sú endurhæfing sem VIRK veitir henti nákvæmlega þessum hópi er eitthvað sem kemur þarna til skoðunar. Alla vega er ég mjög viljugur og áhugasamur um að skoða þetta mál og hef í rauninni beitt VIRK til að vera í sambandi við forsvarsmenn Reykjalundar því að ég tek undir það með hv. þingmanni að þarna er unnið gott starf.