Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[13:56]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það orðalag sem hér er notað er í rauninni kannski það sem einfaldlega styðst við þær skýrslur sem hafa verið lagðar fram með tillögu akkúrat um að lengja þetta tímabil endurhæfingarlífeyris. Það má kannski segja að það sé verið að horfa til þess að við séum með fimm ár í þeim tilfellum þar sem það er algerlega talið raunhæft að viðkomandi geti skilað sér út á vinnumarkað. Það þýðir ekki það, og ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni með það, að viðkomandi geti ekki einhvern tíma síðar á lífsleiðinni farið inn á vinnumarkað. Þetta er ekki meint með þessum hætti, það orðalag sem hér er um að ræða, enda erum við í rauninni að fjalla um að framfærslan geti verið tveimur árum lengri á endurhæfingarlífeyri. Þú getur að sjálfsögðu líka farið í starfsendurhæfingu ef þú ert á örorkulífeyri. Þannig að það eru engar breytingar sem þar er um að ræða og í rauninni verið að undirstrika þetta mikilvæga atriði, að starfsendurhæfingin sé talin geta komið að notum áfram.

Síðan þegar við förum að horfa til vonandi nýs kerfis sem við erum að vinna að þá erum við að horfa til þess að fólk geti verið á fjölbreyttari greiðslum, það geti verið mögulega sjúkragreiðslur, endurhæfingargreiðslur, virknigreiðslur, örorkugreiðslur. Þar held ég að sé líka mjög mikilvægt að við horfum á sveigjanleikann á milli þessara greiðslna. Þetta eru kannski sömu greiðslurnar í upphæðum talið en sveigjanleikinn — í sumum tilfellum getur einstaklingur verið í einhvern tíma tilbúinn til að fara í starfsendurhæfingu en það getur komið bakslag í það þannig að hann þurfi að fara aftur inn í heilbrigðiskerfið. Þá má greiðslukerfið okkar (Forseti hringir.) ekki standa í vegi fyrir því að það sé hægt.