Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:03]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég ætla bara að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Það er auðvitað hluti af stærri vegferð sem við erum að hefja undir forystu hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. En það er ekki oft sem maður fær að koma hér og lýsa því yfir að frumvarp sem lagt er fram sé með þeim hætti að ég hvet — og það vill svo til að ég sit í velferðarnefnd sem fær þetta mál til meðferðar og ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að þetta mál verði afgreitt hér þannig að það verði orðið að lögum áður en við göngum inn í jólin. Þó að á yfirborðinu sé kannski ekki um mikla breytingu að ræða, þ.e. að lengja það tímabil sem fólk getur fengið endurhæfingarlífeyri í þó allt að fimm ár, þá getur þetta skipt alveg gríðarlega miklu máli fyrir einstaklinga en ekki síður fyrir samfélagið okkar í heild og íslenskan vinnumarkað og félagslega þætti, vegna þess að markmiðið er að byggja hér upp betra kerfi og styðja betur við fólk sem á möguleika á því að verða virkt aftur á vinnumarkaði með þeim virkniúrræðum sem í boði eru. Við höfum séð á undanförnum árum dálítið ánægjulega þróun þegar kemur að því að það hefur dregið verulega úr nýgengi örorku og ég ætla að halda því fram og í rauninni kemur það fram í greinargerð frumvarpsins að það sé örugglega að hluta til, a.m.k. hérna, hægt að rekja þá ánægjulegu þróun til þess að við höfum markvisst verið að feta okkur inn á skynsamlegar og markvissari brautir þegar kemur að endurhæfingu og því að auka virkniúrræði. Við getum fagnað því.

Ég hef í þessum ræðustól, þegar við höfum rætt málefni öryrkja og þegar við höfum rætt um þau virkniúrræði sem við erum að beita, gengið svo langt, og það er kannski ofsagt, að halda því fram að heilbrigðiskerfið hafi brugðist en það er þó þannig að okkur hefur a.m.k. mistekist að samþætta heilbrigðiskerfið og úrræði innan heilbrigðiskerfisins og síðan hina félagslegu aðstoð sem felst í m.a. tryggingakerfi sem við rekum hér og köllum almannatryggingar.

Það kann að vera að til skemmri tíma séum við að tala um að útgjöld ríkisins aukist eitthvað vegna þessara breytinga. Eins og þeir vita sem til mín þekkja þá er ég ekki maður sem fagnar því þegar útgjöld eru aukin en ég ætla að halda því fram og ég er eiginlega sannfærður um það að þegar fram líða stundir þá áttum við okkur á því að við erum hér í fjárfestingum. Við erum í fjárfestingu í fólki og við erum með fjárfestingu í heilbrigðara samfélagi hér með því að styðja fólk betur og lengur til þess að eiga möguleika á því að taka virkan þátt á íslenskum vinnumarkaði. Það er þess vegna sem ég taldi rétt og skylt að koma hér upp í örstutta ræðu, aðallega til að lýsa ánægju minni með þetta frumvarp og heita því og gefa loforð um það að ég muni leggjast á árar með félögum mínum öllum í velferðarnefnd til að tryggja að þetta frumvarp nái hér fram að ganga með farsælum hætti áður en við löbbum inn í jólahátíðina.