Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir sína ágætu ræðu. Fjárfesta í mannauði, segir hann. Þetta er nú það sem Flokkur fólksins hefur barist fyrir ár eftir ár, að virkja öryrkja og koma þeim út á vinnumarkaðinn. Við höfum legið hérna með skýrslu sem við höfum fengið frá nágrannaþjóðum okkar, bæði Svíum og Hollendingum og fleiri, þar sem augljóst er að bara það að gefa þeim öryrkjum kost á því að fara út á vinnumarkaðinn sem í raun og veru treysta sér til þess að einhverju leyti — eins og hæstv. ráðherra bendir á er þetta frumvarp sem hér um ræðir ekki síst sniðið að þeim sem eiga meira andlega erfitt og það er að reyna að hvetja til þess að komast út í lífið á ný og út á vinnumarkaðinn.

Það er fallegt þegar hv. þingmaður segist lofa því að hann ætli að beita sér fyrir því að þetta fái farsælan endi. Að sjálfsögðu getur hann lofað miklu frekar ég. Hann er náttúrlega í stjórnarflokkunum og allt sem þeir lofa, ef þeir ætla sér að gera það flýgur það hér í gegn í krafti meiri hlutans. Það liggur í hlutarins eðli. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt að ég lofaði því af öllu hjarta að reyna að berjast fyrir því að fyrir jól gætu öryrkjar farið út að vinna, þeir sem treystu sér til. Það sýndi sig og sannaði að 32% öryrkja sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaðnum í Svíþjóð skiluðu sér ekki aftur inn á kerfið.

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti: Hvers vegna getum við ekki stigið út fyrir rammann? Þetta kostar ekki eina einustu krónu. Þetta er bara að vinna fyrir alla. Það er ekkert öðruvísi. Ef öryrki fer hins vegar út og reynir fyrir sér á vinnumarkaði í dag er honum refsað, ef heilsan leyfir það svo ekki og hann bakkar inn og er kominn aftur inn á kerfið eða vill fara aftur eftir mánuð, einn og hálfan mánuð, gefst upp, þá þarf hann að byrja allt umsóknarferlið hjá Tryggingastofnun alveg upp á nýtt. (Forseti hringir.) Þannig að ég spyr hv. þingmann: Getur hann ekki tekið utan um þetta með okkur, (Forseti hringir.) bara barist fyrir því að við virkilega eflum mannauðinn þarna og gefa fólki kost á að vinna, bara einn, tveir og þrír?