Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:38]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir mjög gagnlegar umræður og áhugaverðar og það er ánægjulegt að heyra að þingheimur deili þessari sameiginlegu sýn, að Ísland verði miðstöð skapandi greina. Við höfum alla burði í það, hvort sem það er í kvikmyndum, tónlist, hönnun, myndlist, sviðslistum og fleiri öðrum skapandi greinum. Undir skapandi greinum eru líka tölvuleikir og fleira. Þetta frumvarp sem ég var að mæla fyrir, þ.e. framlengingin og þær breytingar sem við erum að setja inn, passar auðvitað við þessa framtíðarsýn og hugmyndir um aukna atvinnuuppbyggingu í skapandi greinum. Það vil ég nefna í fyrsta lagi.

Í öðru lagi er það sem við erum að reyna að gera og er partur af hugmyndafræðinni á bak við miðstöð skapandi greina, að byggja upp ákveðna klasa í ákveðnum greinum. Það þekkist mjög víða þar sem hefur náðst góður árangur að það er vegna þess að sterk umgjörð er komin og þessi sterka umgjörð er iðulega til komin vegna þess að það er til mikil fagþekking. Það er ekki hægt að fara í svona vegferð nema að það sé rík tónlistarhefð eða kvikmyndahefð og þetta er margra áratuga uppbygging sem hefur átt sér stað iðulega í viðkomandi klasa. Við getum þakkað mjög varðandi listsköpun í landinu að listamenn hafa sinnt því mjög vel síðustu áratugi og ekki bara áratugi þegar við erum að tala um bókmenntirnar heldur í hundruð ára og þetta er mjög mikilvægt.

Í þriðja lagi erum við stödd í stafrænni byltingu og mikilli sjálfvirknivæðingu starfa og þau störf sem munu lifa koma mjög mikið úr skapandi greinum, þar sem er verið að búa til og við erum í nýsköpun, hvort sem það er í skapandi greinum eða tækninni. Eitt af því sem er að gerast er að það eru færri hendur sem þurfa að vinna verkin í dag og vegna þess er meira rými til þess einmitt að búa til og skapa. Það er ekki sami kostnaðurinn sem hlýst af því að taka upp eins og það var jafnvel fyrir 30 árum. Hann er öðruvísi en það er hægt að gera ákveðna hluti á skilvirkari hátt en áður var. Fyrir fámenna þjóð eins og við erum, og meira að segja fámennari en við héldum fyrir fimm dögum, þá er þetta mjög brýnt. Við eigum einmitt að taka allar þessar tæknibreytingar, hvort sem það er í skapandi greinum eða í menntakerfinu eða eins og hefur gerst í sjávarútvegi og landbúnaði, og nýta þær til að bæta kjör á Íslandi, að það sé meira til skiptanna fyrir fólkið í landinu. Og þetta frumvarp er hreinlega liður í því.

Að því sögðu þá vísa ég þessu máli til atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu.