Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í maí 2020 barst Alþingi skýrsla Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol, þ.e. framkvæmd samnings við umsýslu, fullnustu og sölu á margs konar eignum almennings sem til komu vegna stöðugleikaframlaga í kjölfar hruns bankanna. Settur ríkisendurskoðandi hafði áður sent greinargerð til Alþingis, ríkisendurskoðanda og á fleiri staði með upplýsingum sem hann taldi mikilvægt að kæmust fyrir augu almennings um hvað hefði gengið á þegar þessari verðmætu eignir skiptu um eigendur. Þessari greinargerð neitar forseti Alþingis að skila Alþingi Íslendinga þrátt fyrir lögfræðiálit, þrátt fyrir kærur og þrátt fyrir dóm Hæstaréttar í sambærilegu máli, þ.e. lögbannsmálinu frá 2019, þess efnis að slíkar upplýsingar varði almannahag og eigi þess vegna að koma fyrir augu almennings. Þrátt fyrir þetta allt saman neitar forseti Alþingis enn þá að skila Alþingi og almenningi þessum mikilvægu upplýsingum.

Herra forseti. Hvað á Alþingi að gera þegar sjálfur herra forseti Alþingis neitar að afhenda Alþingi mikilvæg gögn í þágu almennings á Íslandi?