Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Vegna orða herra forseta, um að þetta mál sé í vinnslu í hv. forsætisnefnd, er rétt að fara aðeins yfir tímalínuna. Greinargerð setts ríkisendurskoðanda barst Alþingi 2018. Um mitt ár 2020 kom kæra inn í forsætisnefnd vegna þess að forsætisnefnd neitaði að afhenda blaðamanni umrædda greinargerð, en settur ríkisendurskoðandi hafði skilað greinargerð til þingsins vegna starfa sinna þegar kosinn ríkisendurskoðandi tók við embættinu. Árið 2019 kom dómur Hæstaréttar í lögbannsmáli sem er fordæmisgefandi fyrir mál af þessari stærðargráðu. Í apríl 2022 samþykkti forsætisnefnd að afhenda umrædda greinargerð. Í nóvember 2022 er forseti Alþingis, að því er virðist, enn að þrátta við sjálfan sig um það hvort afhenda eigi gögn sem forsætisnefnd er búin að taka ákvörðun um að afhenda og lögfræðiálit styður að það eigi að afhenda. (Forseti hringir.) Það virðist vera sem forseti Alþingis sé hér að fara gegn vilja forsætisnefndar, gegn lögfræðiáliti og gegn dómi Hæstaréttar.

Herra forseti. Hvar erum við stödd?