Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

almenn hegningarlög.

33. mál
[17:00]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa framsöguræðu sem ég get að mjög miklu leyti tekið undir. Þegar ég var í laganámi gerði ég smárannsókn á því hvort það væri lagalegt inntak í kynfrelsi. Þar sem kynferðisbrotakafli hegningarlaga, sem inniheldur klámákvæðið, er sagður vera til verndar kynfrelsi fór ég að velta því fyrir mér hvað fælist í því. Ég sá strax örlitla þversögn í því, t.d. að systkini megi ekki stunda kynlíf; það hefur lítið með sjálfsákvörðunarrétt þeirra að gera, meira erfðafræðilegan og jafnvel trúarlegan þátt. Eins er með klámið þar sem sjálfsákvörðunarrétturinn er enginn.

Muninn á klámi og erótík hefur löngum verið erfitt að skilgreina. Fræg setning er höfð eftir amerískum hæstaréttardómara: „You know it when you see it“, þú áttar þig á muninum þegar þú sérð efnið eigin augum, en annars er erfitt að skilgreina þennan mun fyrir fram. Það hefur valdið því að þetta ákvæði í hegningarlögum hefur í raun ekkert verið notað. Ég er ekki talsmaður þess að við höldum lögum í lagakaflanum þrátt fyrir að þau séu ekki notuð. Mér finnst miklu frekar að við ættum að afnema lög sem eru ekki notuð.

Frú forseti. Aðalmálið hér er að allt það sem er neikvætt við klám, þegar þú ert ekki þar á eigin forsendum, er ofbeldi og það ofbeldi er varið með öðrum ákvæðum í hegningarlögunum. Ég styð því þetta mál. Mig langar kannski í lokin að fá að spyrja hv. þingmann um muninn á klámi og ofbeldi, ef við værum að stíga það skref. Þá langar mig aðeins að nefna barnaklám. Ef við segjum að klám sé kannski í lagi, ef allir eru sáttir, ættum við þá ekki að finna annað orð yfir barnaklám, að það sé ofbeldi gegn börnum í ákveðinni mynd (Forseti hringir.) eða eitthvað slíkt? Við ættum alla vega að reyna að undirstrika að barnaklám er ofbeldi og allt klám er ofbeldi ef vilji fólks er ekki fyrir hendi. Ég held að við ættum að nálgast það þannig.