Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

almenn hegningarlög.

33. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir andsvarið. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns varðandi það að kannski er ástæða til að nota önnur orð yfir hlutina þegar ekki er um annað að ræða en ofbeldi. Við sjáum það alveg í umræðu um annað. Það hefur oft verið talað um kynlíf með börnum, það er ekki lengur talað um það. Við tölum ekki lengur um kynlíf með börnum vegna þess að við lítum svo á að börn séu ekki með þroska til að veita það samþykki sem nauðsynlegt er, sem er skilgreiningaratriði kynlífs en ekki ofbeldis.

Hv. þingmaður bendir einnig á enn aðra ástæðu fyrir því að afnema þetta ákvæði og ég vék ekki að því í löngu máli í ræðu minni en það er sú staðreynd að ákvæðinu er ekki beitt. Þau lögreglumál sem hafa verið opnuð á undanförnum árum, vegna vörslu, framleiðslu eða afhendingar kláms, varða nánast undantekningarlaust barnaklám. Þegar um er að ræða eitthvað annað þá eru þau mál sem hafa verið opnuð teljandi á fingrum annarrar handar. Það vakti einmitt athygli mína — vegna þess sem ég nefndi í ræðu minni, vegna þessarar miðlunar þar sem fólk getur útbúið sitt eigið efni á eigin forsendum og birt í gegnum vefsíðu Onlyfans — að lögreglan á Íslandi hafði sjálf orð á því að þetta væri ekki forgangsmál í hennar huga og þess vegna væri ekki búið að gera eigur fólks upptækar og handtaka það eins og væri heimilt að gera, og í raun skylt að gera, samkvæmt þessu ákvæði. En það er augljóst að við erum kannski öll sammála um að þetta sé úrelt og óttinn við það að afnema þetta ákvæði snúist meira um það að við erum ekki alveg viss um það hvernig við ætlum að leysa þennan vanda öðruvísi.