Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

almenn hegningarlög.

33. mál
[17:10]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég geti einfaldlega ekki verið sammála hv. þingmanni um að við séum komin út í horn varðandi það að hér hafi orðið ítrekaðar byltingar, í raun öldum saman — við getum talað um hippabyltinguna og við getum talað um allar #metoo-byltingarnar sem hafa verið undanfarið. Við erum ekki komin út í horn. Við erum komin á þann stað að vera miklu tilbúnari til þess að bregðast við, tala við börnin okkar, fræða í skólum. Við erum tilbúnari til þess að vera með áfallamiðaðri nálgun víða í samfélaginu. Við erum ekki komin nógu langt en það er vegferðin sem við erum á og ég held að hún sé rosalega mikilvæg.

Af því að hv. þingmaður minntist á þá vinnu sem var farið í hér, að mig minnir upp úr 2013, af Ögmundi Jónassyni, þá er það leiðin sem ég vil skoða, hvort sem er í þessu máli eða öðru. Við verðum að horfast í augu við að ákveðin lög eða ákveðnar lagagreinar eru orðnar úreltar, geta ekki þjónað tilgangi sínum. Tilgangurinn hefur jafnvel breyst. Þessi vinna var, að mig minnir, sett af stað undir stjórn Róberts Spanó og það er þannig sem við eigum að vinna þetta. Við eigum að vinna þetta faglega og við eigum að fá fræðasamfélagið með okkur. Við eigum að horfa á það út frá tilgangi og markmiði en ekki að loka augunum fyrir því og halda að einn stærsti iðnaður samtímans, sem byggir á mansali, ofbeldi og óendanlega stórum peningaupphæðum, hætti að vera vandamál ef við bara afnemum þetta. Ég sé hlutina ekki þannig og þess vegna mun ég ekki styðja þetta mál.