Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

36. mál
[17:23]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir þetta góða mál sem ég styð heils hugar og tek undir öll þau sjónarmið sem hér koma fram. Þetta er öryggismál en þetta er líka framtíðarmál í þeirri risabúgrein sem nýtilkomin er á Íslandi og mun að mínu mati einungis halda áfram að vaxa að þolmörkum hverju sinni. Við erum svo sem kannski ekkert langt frá þeim í sumu tilliti í dag og það er ein ákveðin, við skulum segja „nísa“ í þessu, sem eru auðvitað þeir sem fljúga milli Vesturheims og Evrópu og þurfa að taka eldsneyti, þurfa að geta stöðvað flugið og tekið eldsneyti og viðrað sig örlítið. Ég veit það, ég hef kynnst aðilum sem hafa sýnt því mikinn áhuga og ég held að það geti verið heilmikil viðskiptaleg sóknarfæri í því hreinlega að reka flugvöll. Það er ekkert sjálfgefið að það þurfi endilega að vera hið opinbera en hið opinbera mæti gjarnan beita sér fyrir því að koma þessu á fót og byggja þetta upp. Síðan held ég reyndar að það megi alveg opna á það að einkaaðilar kunni að reka svona með glæsilegri hætti en ríkið kynni að gera. Persónulega hef ég sitthvað að athuga við hinn opinbera rekstur sem er á okkar stóra alþjóðlega flugvelli við Miðnesheiði, en það er önnur saga. Ég tel það löngu tímabært að koma upp alþjóðlegum flugvelli á Hornafirði og það eru að opnast leiðir í áætlunum um göng milli héraða þar eystra sem munu gera það enn fýsilegra. Ég spyr hvort þingmaðurinn sé mér ekki sammála um að það séu sennilega fleiri sóknarfæri þarna en fram koma í sjálfu frumvarpinu.