Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

vmillilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

36. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni um það að við gætum verið með margar blaðsíður af mögulegum sóknarfærum hér en það yrði samt ekki tæmandi listi. Og t.d. ef þau göng sem þingmaðurinn nefnir kæmu upp undir Lónsheiði, og frekari samgöngubætur, þá er orðið mjög stutt á Djúpavog sem er með mjög vaxandi ferðaþjónustu. Það er að koma nýr vegur yfir Öxi inn nýtt sveitarfélag, sameinað Múlaþing. Þar er mikið fiskeldi og mikið keyrt með fiskinn þaðan, þannig að það er nú einn möguleiki að keyra með hann niður á Hornafjörð og fljúga með hann þaðan, draga úr álagi á vegina — loftslagsmál, eins og ég kom inn á. Þetta er margþætt. Ég tek líka heils hugar undir vangaveltur þingmannsins og held að þetta sé eitthvað sem við ættum að setja í hendur einkaaðila, einkaaðilar hafa sýnt áhuga á að taka við flugvellinum á Hornafirði en það var einhvern veginn ekki vilji þar af því að Isavia á ekki nefnilega völlinn heldur ríkið. Isavia er bara með rekstrarsamning um að þjónusta hann. Því er öðruvísi fyrir komið varðandi Keflavíkurflugvöll. Því held ég að þegar félag er að reka marga velli sé hagkvæmara fyrir það minnka umfangið sem mest á flugvöllunum og þá stýra bara umferðinni meira á Egilsstaði þar sem þeir reka hvort sem er völl. Þetta myndi breytast um leið og einkaaðilinn, eða kannski sveitarfélögin í einhverjum tilfellum, reki flugvelli bara eins og þau reka hafnirnar í dag. Ég held að það sé ein leiðin til að koma innviðum í gott stand og þá koma tækifærin á færibandi.