Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

vextir og verðtrygging o.fl.

50. mál
[18:38]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir það sem hún hefur rætt og reifað. Og hvað sem verður um frumvarpið þá held ég að þetta sé afar mikilvæg yfirferð og upprifjun eða jafnvel vitundarvakning um stærstu meinsemd íslensks samfélags, rót okkar stærstu vandamála og áhyggjuefna undanfarna áratugi. Eflaust hafa peningaáhyggjur fylgt mannkyninu í gegnum tíðina og óttinn við að eiga ekki til hnífs og skeiðar, jafnvel áður en hnífar og skeiðar voru uppfundnar; frumskógarlögmálið í hnotskurn.

Við erum á vissan hátt að glíma við afleiðingar þess að hafa slitið okkur frá peningavitsmönnum gömlu herraþjóðarinnar, Dana; gyðingar með peningavit í bland við norræna menn sem kunnu kannski betur að halda á peningum en við. Þegar við slitum okkur frá dönsku krónunni byrjaði ballið smám saman og náði hámarki árið 1983, minnir mig, þegar verðbólgan á Íslandi náði 130%, takk, á þriggja mánaða bas, 120% á árs bas, og þá var gripið til þessa óyndisúrræðis — ég fór aðeins yfir þetta fyrir viku — og verðtrygging, sem er auðvitað neyðarráðstöfun, var að brenna upp allt sparifé landsmanna og fjármálastofnana. Þá kom þessi tímabundna redding sem er enn hangandi yfir okkur. Ég segi hikstalaust: Stærsta áskorun okkar samfélags, sem hefur að mestu leyti allt með sér nema kannski þetta, er sú að koma okkur út úr þessari þrautagöngu og ég lýsi eftir hugmyndum eða viðbrögðum á netfang mitt, jfm@althingi.is, til ykkar sem eruð mögulega að hlusta.

Í eina tíð var íslenska krónan sterk og stöndug og tæk í gjaldmiðlunarbúrum flugvalla nágrannalandanna. Maður fékk bara ansi mikið fyrir íslenska þúsundkallinn á unglingsárunum, í Bretlandi til dæmis. Við vorum sterk gagnvart pundinu og sterk gagnvart dollaranum um hríð. Niðurlægingin sem við urðum fyrir, þegar allt fór hér til fjandans árið 2008, hefur leitt til þess að við erum hvergi tæk með okkar íslensku örmynt utan landsteina. Ýmsir hafa verið að horfa til Evrópusambandsins sem lausnarinnar á þeim vanda og ef við kæmumst nú í evruumhverfið, eins og sum íslensk stórfyrirtæki eru faktískt komin, þau gera upp í evrum af sérstökum ástæðum, þá væri hér samkeppni á bankamarkaði, þá væru vextir þolanlegir. Eins og í öðrum löndum væri þá hægt að eignast húsnæði yfir höfuðið án þess að vera í skuldafjötrum, svefnlaus af áhyggjum árum og áratugum saman. Ég er ekki að halda því fram að það væri kannski lausn við öllum vandamálum og ég aðhyllist ekki þá vegferð.

Ég held að samkeppni á fjármagnsmarkaði væri okkur afar holl á Íslandi, samkeppni á tryggingamarkaði, altént mynt sem þyrfti enga verðtryggingu, þyrfti ekki að vera á bekk með þriðja heiminum. Annað tveggja landa í heiminum sem verða að styðjast við verðtryggingu; hvers vegna í dauðanum? Það ætti að vera hægt að bæta úr því, ætti að vera hægt að búa til gullfót sem gerði okkar mynt og hagkerfi sambærilegt við það sem þolanlegt þykir í öðrum löndum. Þá hef ég leikið mér með myndlíkingar á borð við gullfótinn sem við studdumst einu sinni við og sagt að við eigum okkar eigin gullfót, sem er gulur, grænn, hvítur og rauður, samfléttaður úr margs konar þáttum í hagkerfinu okkar. Það eru ýmsar hugmyndir sem má velta upp í þessu samhengi. — Það er alla vega ljóst að við erum hér í raun tvær þjóðir, hvor í sínu fyrirtækinu. Það er Brask ehf. sem 10% eiga og svo Basl ehf. sem restin er að bröltast í. Við þurfum að komast út úr þessari óheillasamsetningu. Við þurfum að taka okkur tak í því að hér skapist eðlilegt ástand.

Enginn sem ég hef rætt við er með patentlausn á hreinu en: Leitið og þér munuð finna. Ég er á því að við þurfum að taka þetta mál til þess konar umræðu að við getum bundið endi á þetta ástand sem er ekki boðlegt. Það er ekki boðlegt börnunum okkar, barnabörnunum og þeim sem á eftir koma að búa við allsnægtir, búa í einu ríkasta samfélagi heims, en vera með þetta ofboðslega okur á öllum hlutum og þá mest á peningunum sjálfum. Ávöxtunarkrafa þeirra sem taka að sér að reisa húsin okkar gerir þau miklu dýrari en þau þyrftu að vera. Og svo þegar allar þessar hliðarverkanir vaxtanna og vaxtavaxtanna og refsivaxtanna og vaxtarverkjanna allra og bólgnanna — allar þessar verðbólgur og allar þessar meinsemdir í þjóðarlíkamanum eru að gera meinsemdir mannfólksins á Íslandi óþolandi. Hugsið ykkur ef við værum laus við þessar meinsemdir, skulum við segja, hér í þessum sal, hvað umfjöllunarefnin væru miklu skemmtilegri og hvernig við gætum verið að einbeita okkur að fegurra mannlífi og betra ef þetta væri ekki sífellt að þjaka okkur og allar afleiður þessa.

Ponzi-lánin, sem hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir var að tala um, eru einhvers konar svikamylla sem var búin til fyrir 100 árum af Charles Ponzi í Bandaríkjunum og setti fjölda fólks á hausinn og hann á endanum í fangelsi. Síðan kom auðvitað önnur svikamylla eilítið annars konar sem leiddi til hrunsins á verðbréfamörkuðum og kreppunnar í heiminum 1929 og fram eftir áratugnum sem þar fór á eftir, og kom við okkur Íslendinga. Síðan var Ponzi-pródúktið, ég veit ekki hvort við getum kallað það því nafni, vafningurinn, fundið upp — svo flókin fjármálahagfræði að einungis færustu og snjöllustu menn skildu út á hvað það gekk. En það var í raun of gott til að vera satt. Menn töldu að húsnæðismarkaðurinn væri nógu traust undirstaða í Bandaríkjunum fyrir einhvers konar vafninga af fasteignalánum og tryggingum og alls kyns pródúktum; fjármálavara er það kallað. Og svo loksins endaði þetta með því að sá sem veðjaði á að þetta væri allt að fara til fjandans varð milljarðamæringur en bankakerfi heimsins hrundu og Ísland var þar sem lítið sandkorn og bar enga sök á því alþjóðlega bankahruni. En ólíkt ýmsum þá voru bankarnir varðir í sumum löndum en öðrum ekki og við erum enn að bíta úr nálinni með þetta og þessar skelfilegu afleiðingar. Við erum enn að brölta í sama ruglinu og við vorum komin í í 130% verðbólgunni. Þótt verðbólgan sé innan við 10% af því sem hún var á þeim árum, 1983 og hvað það nú var, er þetta enn óásættanlegt og uppspretta eilífra deilna, kvartana, rifrilda, málaferla og fyrst og fremst vanlíðunar fjölda fólks sem nær ekki endum saman.

Jafnvel þó að báðir foreldrar, sem dæmi, séu í fullri vinnu við að reyna að framfleyta sér þá ná þau rétt endum saman á Íslandi. Við búum í okurríki, allt of dýru landi sem þarf að taka sér tak í nákvæmlega þessum efnum og útrýma öllu tali um verðtryggingar og einhver afbrigðilegheit. Það eiga ekki að vera nein afbrigðilegheit hér. Við höfum verulega sterka útflutningsvöru í fjölþættu formi, sterkar tekjur af ferðaþjónustu, sjávarútveginum, orkusölunni og öllu þessu. Hættum að láta bjóða okkur að vera hamstrar í hjóli sem knýr túrbínur þeirra sem eiga fjármagnið og fitna við hvern hring sem hjólið snýst. Tökum umræðuna. Hún fer ekki fram hér í þessum sal, því miður. Hún fer ekki fram í nefndum þingsins. Ég veit ekki hvar hún fer fram en ég er að vonast til að hún geti hafist, þá kannski frá og með þessum degi, úti í samfélaginu; að menn fari að hugsa hvaða leiðir eru í því að öðlast styrk og stöðugleika í okkar hagkerfi og efnahagsmálum sem sker okkur úr þessum viðvarandi leiðindum sem við höfum látið bjóða okkur eins og hver önnur þrælaþjóð í áratugi.

Nóg er komið bæði af orðum og tíma í þessu samhengi í bili. Ég þakka fyrir mig.