Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

neytendalán og fasteignalán til neytenda.

55. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda, endurfjármögnun verðtryggðra lána. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Þetta frumvarp var fyrst lagt fram af Ingu Sæland, í formi breytingartillögu við frumvarp um breytingu á lögum um fasteignalán, og svo í núverandi mynd af mér sjálfri, en málið hefur því miður ekki hlotið brautargengi. Staðan í landinu var þá þannig að vextir höfðu lækkað mikið og voru lægri en nokkurn tímann áður á Íslandi. Þessi staða leiddi til þess að þúsundir sáu sér fært að skipta yfir í óverðtryggð lán en ekki var öllum fært að gera það. Tillagan snerist um að mæta þeim hópi, enda er óhætt að fullyrða að um grófa mismunun eftir efnahag sé að ræða þegar það ræðst af tekjum og efnahag hvort einstaklingar geti nýtt sér þá hagstæðustu lánamöguleika sem bjóðast á hverjum tíma. Tillagan sem felst í frumvarpinu snýst um að öllum, óháð efnahag, verði gert kleift að skipta úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán.

Það er óneitanlega önnur staða sem blasir við núna í efnahagsmálum þjóðarinnar en fyrir ári síðan þegar bæði fjármálaráðherra og seðlabankastjóri fullyrtu ítrekað að vextir myndu ekki hækka, a.m.k. ekki svo neinu næmi. Þannig að það er hætt við að einhverjum þyki þetta frumvarp tímaskekkja og nú muni fáir vilja fara úr því lánaformi sem fjármálaráðherra hefur ranglega kallað skjól á erfiðum tímum. En núna er einmitt tíminn til að samþykkja frumvarp sem þetta, þótt ekki væri nema vegna þess að vextir munu lækka aftur og þá þarf þessi heimild að vlámsera til staðar. Þessi heimild þarf fyrst og fremst að vera til staðar því að verðtryggð lán eru ekki það skjól sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vill meina. Þeir sem eru með verðtryggð lán munu þvert á móti súpa seyðið af núverandi verðbólgu um alla framtíð, löngu eftir að hún er hætt að hafa áhrif á okkur hin, löngu eftir að við verðum öll búin að gleyma heimsfaraldrinum og stríðinu í Úkraínu. Þegar það verður minningin ein fyrir okkur flest munu þau sem eru með verðtryggð lán enn vera að borga fyrir efnahagslegar afleiðingar þessara atburða, í allt að 40 ár ofan á allt annað sem mun óhjákvæmilega líka að gerast í framtíðinni.

Verðtryggð lán eru flókin afleiðulán og sú eina ástæða ætti að nægja til að við bönnuðum þau með öllu fyrir neytendur. Þau eru eitraður kokteill en þar sem hann er hægdrepandi getur hann litið út fyrir að vera góður til skamms tíma. Fimm ára gamalt 30 millj. kr. lán stóð í 32,5 milljónum í upphafi þessa árs þegar verðbólgan var um 6%. Á góðæristímum, þar sem vextir voru á tímabili jafnvel lægri en nokkru sinni í Íslandssögunni, hafði þetta lán hækkað að meðaltali um nær 42.000 kr. í hverjum einasta mánuði. Frá því í ársbyrjun hafa reiknast vextir, vaxtavextir og verðbætur ofan á 32,5 milljónir í stað 30 milljóna. Þá gaf greiðsluáætlun til kynna að lánið myndi standa í 33,4 milljónum í árslok og hefði þá bætt við sig að meðaltali 75.000 kr. á hverjum mánuði frá lántökudegi. Ársverðbólga var þá, eins og áður sagði, um 6% og útlit fyrir að lántakendur myndu borga 7 milljónir aukalega á lánstímanum, bara vegna þessarar 2,5 milljóna verðlagshækkunar sem varð 12 mánuðina á undan. Nú blasir við að staðan er enn verri en það og svo slæm að við sem þó höfum haft skilning á skaðsemi þessara lána erum í hálfgerðu áfalli.

Frá því í byrjun árs hefur verðbólgan hækkað um 3,4 prósentustig. Miðað við 9,4% ársverðbólgu og vexti dagsins í dag mun þetta lán standa í 35 milljónum í árslok og mun þá hafa bætt að meðaltali við höfuðstólinn 80.000 kr. í hverjum mánuði frá því að lánið var tekið. Þar með er ekki öll sagan sögð því að vegna verðbólgu undanfarinna 12 mánaða munu skuldararnir, sem taka á sig vexti, vaxtavexti og verðbætur um alla framtíð, þurfa að borga heilar 30 milljónir aukalega á lánstímanum í stað 7 milljóna eins og í fyrri útreikningum þegar verðbólgan var 6%. Athugið að það er bara vegna þessa eina árs af öllum 40 ára lánstímanum. Eins og áður var sagt bættust 42.000 kr. að meðaltali á mánuði við lánið á fjórum árunum þar á undan. Það má því gera ráð fyrir að ef lán í fullum skilum hækkar bara um 40.000 á mánuði sé það vel sloppið. Nú mun þessi mánaðarlega hækkun verða sexfalt meiri vegna þeirra 3,5 prósentustiga sem verðbólgan hefur hækkað um. Þannig að eftir fimm ár héðan í frá, þann 1. desember 2027, verður þetta lán komið í 49 milljónir og hefur þá hækkað að meðaltali um 233.000 kr. á hverjum mánuði í stað 40.000 kr. fimm árin þar á undan. Þannig vefur lánið upp á sig. En svo fáránlega sem það hljómar þá er það samt ekki fyrr en höfuðstóllinn fer að lækka sem raunverulega kemur að skuldadögum. Ef fram heldur sem horfir mun lánið ekki lækka aftur niður í upphaflegan höfuðstól fyrr en á síðasta ári lánstímans. Þá verður greiðslubyrðin komin upp í 2,5 milljónir króna á mánuði.

Til samanburðar má skoða óverðtryggt lán. Fyrsta afborgun þess er vissulega mun hærri en af verðtryggða láninu þar sem vextir eru nú með hæsta móti en ef valdar eru jafnar greiðslur er greiðslubyrðin sú sama út allan lánstímann og mun lækka um leið og vextir fara aftur að lækka. Í þessu dæmi eru vextirnir 7,25% en 2,1% af verðtryggða láninu. Flestir myndu væntanlega velja jafnar greiðslur nema þeir séu þeim mun betur staddir. Þá myndu afborganir verðtryggða lánsins vera búnar að ná afborgunum óverðtryggða lánsins eftir tæplega níu ár. Eftir níu ár hefur óverðtryggða lánið hækkað um þrjár milljónir á meðan verðtryggða lánið hefur meira en tvöfaldast, eða hækkað um 32 milljónir. Það er því komið upp í 62 milljónir á meðan óverðtryggða lánið er orðið 27 milljónir. Greiðslubyrði óverðtryggða lánsins verður þá að öllum líkindum orðin lægri en hún er núna en greiðslubyrði verðtryggðra lánsins mun aftur á móti bara halda áfram að hækka upp frá því. Þarna er allur sá ávinningur sem verðtryggð lán eru ranglega sögð hafa löngu horfinn og staðan versnar stöðugt upp frá því, allt til loka lánstímans. Það er því óhætt að segja að þessi fyrstu fimm ár verði dýru verði keypt. Eins og fyrr segir er það samt ekki fyrr en höfuðstóllinn fer að lækka sem raunverulega kemur að skuldadögum. Þegar lánið nær upphaflegum höfuðstól, 39 árum eftir að það var tekið, verður greiðslubyrði lánsins komin upp í 2,5 milljónir króna á mánuði. Á síðasta ári lánstímans, einu ári, mun lántakandinn því þurfa að greiða heilar 30 milljónir í afborganir á mánuði eða allan upphaflegan höfuðstól lánsins á einu ári. Þegar upp er staðið mun lántakandinn hafa þurft að endurgreiða rúmar 353 milljónir af 30 millj. kr. láni eða meira en ellefufalda lánsfjárhæðina. Þetta kann að hljóma fjarstæðukennt og já, þetta er fjarstæðukennt en stærðfræðin lýgur samt ekki.

Ef miða á við að afborganir húsnæðislána séu ekki meira en 35% af ráðstöfunartekjum þyrftu meðallaun á Íslandi að verða tæpar 14 milljónir á mánuði undir lok lánstímans. Það væri nú ekki merki um góða hagstjórn ef verðbólga hefði verið það mikil á þessum tíma að laun væru komin í þannig upphæðir enda myndi það bara bíta í skottið á sér gagnvart verðtryggðum lánum sem hefðu þá að sama skapi hækkað enn þá meira. Það er athyglisvert í þessu samhengi hversu miklu munar á því að verðbólgan hækki um rúm 3 prósentustig frá því sem var í ársbyrjun því að það hljómar ekki sem mjög mikil sveifla. Á þessum 3 prósentustigum munar meira en 12 milljónum á því hver upphæð höfuðstóls verður eftir fimm ár og 116.000 kr. á mánaðarlegum afborgunum sem hafa þá hér um bil tvöfaldast. Lánið er 13 árum lengur að ná upphaflegum höfuðstól og þegar þar að kemur munar meira en 1,5 millj. kr. á greiðslubyrði lánsins, allt vegna þess að verðbólgan sveiflast um 3 prósentustig. Þessi samanburður er lagður fram af tveimur ástæðum. Annars vegar til að sýna fram á að það eru ekki síður nauðsyn að veita skuldurum þennan möguleika í ástandi eins og því sem er í dag þegar verðbólga og vextir eru í hæstu hæðum en þegar tíðin er betri. Hins vegar til að sýna fram á að verðtryggð lán eru ekki skjól. Þau eru hrein og klár fátæktargildra sem sífellt erfiðara verður að losna út úr eftir því sem tíminn líður og eftir því sem ástandið er verra. Það má jafnvel segja að á þessu ári hafi versti hugsanlegi tíminn verið til að taka verðtryggt lán. Verðtryggð lán gera ekkert annað en að seinka því óumflýjanlega. Ef skuldari ræður ekki við afborganir óverðtryggðra lána eins og staðan er í dag er hann með því að taka verðtryggt lán í besta falli að kaupa sér gálgafrest og lengja í snörunni áður en allt fer á enn verri veg. Verðtrygging er sambærileg lausn og það að pissa í skóinn sinn í hörkufrosti. Það er allt betra en verðtrygging.

Okkur ber hreinlega skylda til að sjá til þess að þeir sem átta sig á þessum stað staðreyndum og sjá í hvað stefnir verði gert kleift að skipta yfir í óverðtryggð lán áður en staðan verður enn verri. Í frumvarpinu er þannig kveðið á um að neytandi eigi ávallt rétt á að breyta eftirstöðvum verðtryggðs láns í óverðtryggt lán án þess að undirgangast lánshæfis- og greiðslumat, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum: Lánið sé ekki í verulegum vanskilum, heildarskuld neytenda hækki ekki við breytinguna og greiðslubyrði neytenda aukist ekki við breytinguna. Aðeins nánar um þessi skilyrði: Það er sjálfsögð krafa að lánið sé í skilum nema eitthvað óvenjulegt hafi átt sér stað, annaðhvort í efnahagslífinu, eins og t.d. óðaverðbólga eða hrun, eða í persónulegu lífi skuldarans, eins og t.d. slys eða alvarleg veikindi hans eða hans nánustu, sem hljóti að hafa haft áhrif á fjárhagsstöðu hans og skil á greiðslum.

Að heildarskuld neytenda hækki ekki við breytinguna er eðlilegt skilyrði til að hindra að hægt sé að nýta þann breytirétt sem frumvarpið felur í sér til að taka nýtt fé að láni. Þegar neytandi kýs að auka skuldsetningu sína, svo sem til að innleysa aukið eigið fé sem myndast vegna hækkunar fasteignaverðs, er í raun um nýja lántöku að ræða. Frumvarpinu er ekki ætlað að ná yfir slík tilvik heldur aðeins þau tilfelli þar sem neytandi vill breyta láninu sínu úr verðtryggðu í óverðtryggt með þeim vaxtakjörum sem því fylgir án þess að neitt annað breytist.

Að greiðslubyrði neytenda aukist ekki með breytingunni er að sama skapi eðlilegt skilyrði enda myndi hærri greiðslubyrði þýða að meta þyrfti hvort neytandinn réði við þá auknu greiðslubyrði. Þess vegna nær breytiréttur samkvæmt frumvarpinu aðeins til þeirra tilfella þar sem greiðslubyrði myndi lækka eða haldast óbreytt, enda væri það neytandanum til hagsbóta.

Útreikningar sem voru gerðir við undirbúning frumvarpsins sýndu samt sem áður fram á að breyting yfir í óverðtryggð lán gæti gagnast öllum neytendum með eldri verðtryggð lán á föstum vöxtum sem eru hærri eða jafn háir og þeir vextir sem hafa boðist á nýjum óverðtryggðum lánum. Með þessu er stefnt að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir neytendur sem vilja færa sig úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán og stuðla þannig að því að þeir hafi ótvíræðan og raunhæfan valkost um að afnema verðtryggingu lána sinna hvenær sem er. Skilyrðin sem eru sett fyrir því að njóta breytiréttar samkvæmt frumvarpinu eru ætluð til þess að vera málefnaleg, hófleg og tryggja jafnræði milli lánveitanda og neytanda. Þannig er gert ráð fyrir því að ef neytandinn er í skilum og breyting úr verðtryggðu láni yfir í óverðtryggt sé honum til hagsbóta þá samræmist það jafnan heilbrigðum viðskiptaháttum lánveitanda að gefa honum kost á því að gera slíka breytingu á láninu án verulegra hindrana. Þessi skilyrði samræmast jafnframt tilgangi ákvæði XII. kafla laga um fasteignalán til neytenda sem fjalla um úrræði vegna greiðsluerfiðleika til að afstýra nauðungarsölu á fasteign neytanda þar sem hófleg greiðslubyrði er til þess fallin að draga úr líkum á slíkum erfiðleikum. Enn fremur samræmast þau því markmiði að draga úr vægi verðtryggingar í lánum neytenda sem hefur margoft komið fram í stjórnarsáttmálum fyrri ríkisstjórna. Sérstaklega er tekið fram að lánveitanda sé ekki heimilt að krefja neytendur um gjöld fyrir breytingu úr verðtryggðu láni yfir í óverðtryggt lán, umfram nauðsynlegan kostnað við að framkvæma breytinguna sem skulu byggjast á hlutlægum grunni.

Áhrif frumvarpsins lúta einkum að því að greiða fyrir því að neytendur geti haft valfrelsi um að skipta yfir í óverðtryggð lán. Það myndi stuðla að markmiðum lífskjarasamninga um að taka skref í átt að afnámi verðtryggingar og skapa hvata og stuðning til þess að heimili sem það kjósa geti breytt verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð. Jafnframt væri það til þess fallið að auka skilvirkni í peningastefnu Seðlabanka Íslands. Verðtryggð lán eru ekki skjól, þau eru gildra. Okkur ber skylda til að leita allra ráða til að losa fólk úr henni til að það geti átt einhverja von um að losna úr hamsturshjólinu og geti búið sjálfu sér og fjölskyldu sinni gott líf.

Þetta frumvarp er mikilvægur liður í þeirri vegferð. Ásamt frumvarpinu um afnám verðtryggingar, sem ég er nýbúin að mæla fyrir, myndar það heildaráætlun til að koma íslenskum neytendum úr verðtryggðum lánum yfir í nafnvaxtaumhverfi.