Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

sjúkratryggingar.

57. mál
[14:20]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum(tannheilbrigðisþjónusta fyrir börn, aldraða og öryrkja).

Flutningsmenn með mér á þessu frumvarpi eru þingmenn Flokks fólksins: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:

a. 1. mgr. orðast svo:

Sjúkratryggingar taka til allra tannlækninga og tannréttinga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára. Þá taka sjúkratryggingar til tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um skv. IV. kafla vegna meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.

b. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal ekki takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga barna. Jafnframt skal ekki takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga aldraðra og öryrkja sem hafa engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga sem og aðrar opinberar greiðslur sem tengjast örorku- og ellilífeyrisréttindum.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Frumvarp þetta er byggt á frumvarpi sem var áður lagt fram á 150. og 152. löggjafarþingi, 40. mál, en náði ekki fram að ganga.“

Ég er eiginlega enn að velta fyrir mér: Hvernig stendur á því að það náði ekki fram að ganga? Þetta er kannski ekkert réttlætismál, er það? Það er kannski alveg sjálfsagt að mismuna þegnunum eftir efnahag þegar þeir þurfa að veita sér tannheilbrigðisþjónustu? Það er kannski engin reisn í því að geta brosað fallega með beinar tennur? Það er frekar nær að í umboði stjórnvalda séu þúsundir einstaklinga úti í samfélaginu sem taka fyrir munninn og geta ekki brosað eða eru búnir að missa tennurnar, hafa ekki komist til tannlæknis. Ég get aðeins sagt það af eigin reynslu þegar ég lifði á almannatryggingakerfinu að þá liðu heil níu ár án þess að ég gæti leitað mér tannlæknaþjónustu. Og af hverju skyldi það nú hafa verið, virðulegi forseti? Það var einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki efni á því, það er nú ekki flóknara en það.

Í frumvarpinu sem ég vísa hér til, og þetta frumvarp byggir á, var lagt til að tannréttingar vegna meðfæddra galla yrðu gjaldfrjálsar vegna mikilvægis þess að veita tannheilbrigðisþjónustu til allra, óháð efnahag. Ástæða þykir til að víkka út gildissvið þessa frumvarps vegna þess að bara núna — af eigin reynslu og úr umhverfi mínu, frá fullorðnu fólki sem ég þekki í dag, sem stjórnmálamaðurinn sem ég er, einstaklingum sem eru að biðja um aðstoð og hjálp og vita ekki hvernig á að snúa sér; mæðrum sem eru gjörsamlega niður sín og hafa safnað skuldum vegna þess að þær hafa ekki haft ráð á því að setja börnin sín í tannréttingar, þær hafa ekki getað borgað jafnóðum. Og hvað gerist svo þegar þú ert hættur að geta borgað? Heyrðu, því miður. Ég get ekki boðið barninu þínu frekari þjónustu. Þú skuldar mér nú þegar fullt af peningum, ágæta móðir.

Í lögum um sjúkratryggingar er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna. Þá taka sjúkratryggingar einnig til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga í ákveðnum tilvikum, þ.e. vegna afleiðinga alvarlegra meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Þá er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga ekki skilyrðislaus því að ráðherra hefur heimild til að takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga með reglugerð og almennt eru nauðsynlegar tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir börn en öðru máli gegnir um tannréttingar. Sem dæmi má nefna að veittur er styrkur að fjárhæð 150.000 kr. ef föst tæki eru sett í báða góma en almennt er kostnaður við slíkar tannréttingar talsvert umfram þá fjárhæð, öllu jafna ekki undir 700.000 kr. Svo mikil fjárútlát hafa veruleg áhrif á fjárhag fátækra fjölskyldna. Samfélaginu ber skylda til að tryggja að öll börn fái þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa án tillits til efnahags. Það kemur sífellt betur í ljós hve mikilvæg tannheilsa er. Þá getur það haft keðjuverkandi neikvæðar afleiðingar ef ekki er gripið til réttra aðgerða á réttum tíma. Því er lagt til að framvegis verði öll tannheilbrigðisþjónusta í þágu barna gjaldfrjáls. Sum börn eru heppnari en önnur, það liggur í hlutarins eðli, en þau börn eru líka til sem þurfa jafnvel að vera undir handleiðslu og í meðferðum hjá tannlæknum og sérfræðingum í allt að fimm ár, hitta tannlækninn sinn mánaðarlega í allt að fimm ár, gangast undir munnholsaðgerðir með því að vera með alls konar þvingur og spangir í munninum á meðan verið er að reyna að hjálpa barninu að fá eðlilegar tennur.

Það er sárara en tárum taki, virðulegi forseti, að maður skuli ítrekað standa hér í þessu æðsta ræðupúlti landsins og vera að biðja um eitthvað, óska eftir einhverju og mæla fyrir einhverju sem öllum á að vera augljóst að er sjálfsagt mál. Hvernig í ósköpunum er hægt að mismuna fólki svona gífurlega á sama tíma og verið er að reyna að röfla um jöfnuð hér? Aldrei verið annar eins jöfnuður og nú, kaupmátturinn algerlega í hæstu hæðum — þvílíkt bull, virðulegi forseti. Þetta á eingöngu við um suma. Þetta á við um ákveðna útvalda hópa í samfélaginu. Þetta á ekki við um alla. Þetta á ekki við um þá sem við eigum að setja í fyrsta sæti áður en við gerum nokkuð annað úr okkar sameiginlegu sjóðum. Við eigum alltaf að setja fólkið í fyrsta sæti. Eins og kjörorð Flokks fólksins er: Fólkið fyrst, svo allt hitt.

Gamall maður kom til mín grátandi um daginn, hann er að hjálpa konunni sinni. Hún er með vandamál í munni. Í fyrsta lagi voru ekki smíðaðar eðlilegar tennur fyrir hana. Í öðru lagi var skilin eftir tönn sem var farið að grafa undir og í þriðja lagi voru þau hjónin rukkuð um fleiri hundruð þúsund fyrir aðgerð sem var í raun mislukkuð frá a til ö. En það kom ekki til greina að sleppa þeim við þá greiðslu, alls ekki, enda er alltaf hægt að níðast á þeim sem hafa ekki ráð á að leita sér lögfræðiaðstoðar og draga svona lið fyrir dóm. Ég trúi því alla vega að dómskerfið okkar myndi standa með fólkinu þegar verið er að svína svona svívirðilega á því. Það er sárara en tárum taki að horfa upp á fullorðið fólk niðurbrotið í vanlíðan og kvíða, fólk sem er búið að vinna í sveita síns andlitis alla sína ævi og ætti nú að vera komið á þann stað að geta lifað hér þokkalega áhyggjulausu ævikvöldi. Ég velti fyrir mér hvort æðstu embættismenn og ráðamenn í landinu hafi bara yfir höfuð aldrei nokkurn tíma hitt slíkt fólk, hafi aldrei heyrt sögu þess, hafi raunverulega aldrei tekið það inn í blóðrásina hvað það eru margir hér sem eiga um sárt að binda. Eru þessir ágætu æðstu ráðamenn þjóðarinnar í einhverjum fílabeinsturni? Sitja þeir bara í einhverjum glerturni og hafa aldrei nokkurn tímann stigið niður á jörðina til þeirra sem virkilega þurfa á hjálp þeirra að halda? Þeir geta ekki einu sinni sett sig í þeirra spor heldur klifa á því endalaust að allir hafi það frábært, nú í 9,4% verðbólgu og blússandi vöxtum þar sem lánin eru að margfaldast hjá fjölskyldunum í landinu, fullorðna fólkinu og öryrkjunum sem hafa ekki efni á að leita sér nauðsynlegrar tannlæknaþjónustu. Þeir öryrkjar og eldri borgarar sem reiða sig alfarið á lífeyri almannatrygginga eiga nógu erfitt fyrir með að ná endum saman. Þau hafa ekkert fjárhagslegt svigrúm, ekki neitt. Þau geta ekki veitt sér neinn munað í mat. Þau geta ekki rekið bíl, allt of margir gjörsamlega skrimta.

Virðulegi forseti. Ég hef þegar mælt fyrir breytingartillögu við fjáraukann þar sem ég óska eftir 60.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir þennan þjóðfélagshóp öryrkja og eldra fólk sem hefur ekki neina aðra framfærslu að byggja á en framfærslu frá almannatryggingum. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, minn góði þingflokksbróðir og þingflokksformaður Flokks fólksins, kom með frábæra hugmynd sem felur það einfaldlega í sér að þessir einstaklingar eigi bara að fá greiddan 13. mánuðinn. Það er athyglisvert að lesa loforðin sem sáust fyrir nokkrum árum þar sem verið var að lofa því — ef ég fæ umboð, ef þið kjósið mig skal ég sjá til þess að afnema skerðingar á lífeyri eldri borgara vegna þess að það er ósanngjarnt. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, ég held að allir viti um hvað er rætt. En hvernig skyldi það nú hafa raungerst í veruleikanum? Einstaklingum sem reyna að hjálpa sér sjálfir, reyna að rjúfa hina rammgerðu fátæktargildru sem er búið að festa þá í, er ekki gefið færi á því. Þau hafa enga möguleika á því að hjálpa sér sjálf vegna þess að þá er þeim einfaldlega refsað. Til dæmis er frítekjumark hjá öryrkjum 109.000 kr. á mánuði. Öryrki má vinna fyrir 109.000 kr. á mánuði, fyrir skatta, án þess að það skerði framfærsluna frá Tryggingastofnun nema náttúrlega þegar kemur að sérstakri uppbót sem þurrkast út strax þó að öryrkinn sé ekki einu sinni búinn að fá útborgað nema 40.000 kr.

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér, svona hefur þetta verið frá því eftir hrun, frá því að hin frábæra norræna velferðarstjórn reisti „gjaldborg“ um heimilin í landinu, frá því að sú frábæra norræna velferðarstjórn kom með krónu á móti krónu skerðingar á fátækasta fólkið í landinu. Svona hefur þetta verið hjá öryrkjum í öll þessi ár. Ef þetta hefði fengið að fylgja launaþróun mættu þau vinna núna fyrir hátt í 250.000 kr. á mánuði, ekki 109.000 kr. Hvernig í ósköpunum eiga einstaklingar sem eru að fá 240–270.000 kr. á mánuði útborgaðar að geta veitt sér nokkurn skapaðan hræranlegan hlut, hvað þá að kosta eðlilega heilbrigðisþjónustu fyrir börnin sín? Það er ekki hægt.

Flokkur fólksins hefur líka mælt fyrir frumvarpi — það var fyrsta forgangsmál Flokks fólksins í haust af þeim 70 þingmannamálum sem við höfum lagt inn, gerðum það strax á fyrsta degi þingsins — um 400.000 kr. greiðslu skatta- og skerðingarlaust til þessa hóps. Hvar ætlið þið að fá peningana?, spyrja þeir. Ætlið þið að fara að skatta alla upp í rjáfur? Á að hækka skatta? Nei, en við hefðum aldrei lækkað skatta og látið það kosta ríkissjóð 21 milljarð kr. og hirt það til okkar sem erum hátekjufólk. Ef við erum að skerða tekjur ríkissjóðs um 21 milljarð kr. til að þykjast vera að gera það fyrir þá sem verst standa, þá værum við ekki sönn, er það? Við hefðum hins vegar fært þennan 21 milljarð til þeirra verst settu án þess að milljónamaðurinn og -konan hefðu haft nokkurn skapaðan hlut með það að gera. Hvað hefur sá sem er með margar milljónir á mánuði í tekjur t.d. að gera með persónuafslátt? Jú, 53.600 kr. á mánuði, fín viðbót á einu og hálfu milljónina eða tvær milljónirnar eða fimm milljónirnar eða tíu milljónirnar, alveg frábært. Jafnræðið í landinu er algerlega æðislegt þegar kemur að þessu. Þetta er jafnræðið. Við skulum ekki vera að taka persónuafsláttinn af þeim sem eru með fulla vasa fjár.

Flokkur fólksins segir: Færum fjármagnið þangað sem er þörf fyrir það, gefum öllum samfélagsþegnum kost á því að taka þátt í samfélaginu með okkur. Látum ekki fólkinu okkar líða svona illa, skiljum ekki börnin okkar út undan, hættum með þessa biðlista. Hvað verður um börnin okkar sem eru skilin út undan? Hver er rótin að þeim vanda í samfélaginu sem við erum að verða vitni að að fer stigvaxandi dag frá degi? Hvers vegna öll þessi fíkn, hvers vegna allur þessi flótti og hvers vegna öll þessi vanlíðan? Hún er vegna fátæktar fyrst og síðast, að sjálfsögðu eru alltaf einhverjar undantekningar, en það er algerlega rót alls vanda hvernig fólk hér er látið húka í fátækt. Ekki nóg með það. Við sjáum líka einstaklinga sem eiga hvergi höfði sínu að halla, hafa ekki einu sinni þak yfir höfuðið. Það eru venjulega fíklarnir okkar, það eru venjulega alkóhólistarnir okkar, það er fordæmda fólkið, óhreinu börnin hennar Evu, þau sem eru jaðarsett og eru sett á bið. Mörg þeirra deyja á þeirri bið. Það er dauðabiðlistinn. Fáir óska eftir því að fá hjálp út úr sínum vanda, sem lýtur að fíknisjúkdómum, nema þeir séu virkilega orðnir veikir og tilbúnir til að þiggja hjálp. En nei, bíddu, vinur minn, því miður, það er ekki pláss fyrir þig alveg strax. Bíddu aðeins lengur vegna þess að það eru 700 á undan þér í úrræðið. Hvers lags samfélag er þetta eiginlega?

Ég mæli fyrir frumvarpi til að geta gefið venjulegu fólki, sem haldið er í fátæktargildru, og börnum kost á því að fara til tannlæknis. Samfélagið sem er svona ofboðslega ríkt, eins og margir vilja halda fram, á að taka utan um þetta fólk og aðstoða það við að leita sér læknishjálpar. Mig langar áður en lengra er haldið og áður en ég hætti að tala um endurhæfingu, um fólkið sem er komið þangað að það á svo bágt, er dottið út af vinnumarkaði, líður illa á sálinni. Það hefur ekki getað veitt sér eða börnunum sínum neitt. Kannski eru þetta jafnvel börnin. Já, við skulum bara vera með snemmtæka íhlutun. Við skulum aðstoða þetta fólk og koma því í endurhæfingu. Tryggingastofnun heitir batteríið. En heyrðu: Þú sem ert ekki með 1 kr., þú ert ekki á örorku, ekki á endurhæfingarlífeyri, þú átt ekki heldur heima hjá félagsþjónustunni af því þú ert ekki búinn að skila öllum vottorðum sem við viljum fá, þú þarft fyrst að fara í sjúkraþjálfun, leita þér geðhjálpar, leita þér sálfræðings. Jú, tíminn kostar kannski 20.000 kall hjá hverjum og einum, bara 5.000 kannski hjá sjúkraþjálfaranum en þú þarft fyrst að sýna þetta og svo skaltu tala við okkur aftur.

Ég spyr: Hvar á þessi einstaklingur að fjármagna það sem er verið að fara fram á að hann geri til þess að geta nýtt sér þau ágætu úrræði sem er verið að grobba sig af að séu til staðar í samfélaginu? Hverjir skyldu það nú vera sem er verið að reyna að endurhæfa til að koma þeim út í samfélagið á ný? Jú, að stórum hluta er það fólk sem glímir við alkóhólisma, fíknisjúkdóma og sprettur úr sárri fátækt. Það er ekki einu sinni þá — þegar verið að reyna að benda á mögulega lausn á því að rjúfa aðeins skarð í þessa rammgerðu fátæktargildru og reyna að aðstoða fólk til sjálfshjálpar — að ljós kvikna hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar. Það er ekki einu sinni þá sem þeir hugsa með sér: Já, kannski er bara eitthvað til í því sem konan er að segja. Og hvað er konan að segja? Ég hef ítrekað ,fyrir hönd okkar í Flokki fólksins, mælt fyrir frumvarpi um að leyfa öryrkjum að vinna án þess að skerða almannatryggingabæturnar hjá þeim í einhvern x aðlögunartíma, gefa þeim tækifæri til að sjá hvort þau hafa mögulega tækifæri til þess að rjúfa vítahring einangrunar, inniveru, þunglyndis, depurðar, kvíða og fátæktar og gefa þeim kost á að stíga út fyrir rammann vegna þess að við töpum engu á því. Íslenska samfélagið hefur ekkert nema hagnað af því. Þessir einstaklingar munu á sama tíma greiða skatta og skyldur af sínum störfum. 32% þeirra einstaklinga — ef eitthvað er að marka þær skýrslur sem við höfum fengið frá Svíþjóð og fleiri löndum sem hafa verið að reyna óhefðbundnar lausnir og leiðir til að virkja mannauðinn sem felst í öryrkjum — skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið þegar þessum aðlögunartíma lauk. Mér er algerlega hulin ráðgáta hvaða stærðfræðisnillingar það eru sem koma engan veginn auga á það að tveir plús tveir eru fjórir. Þetta er einfaldasti hlutur í heimi

Ég er bara að benda á þetta dæmi um þessa mismunun í heilbrigðisþjónustu sem lýtur að tannheilbrigði og byggir eingöngu á fátækt. Ríkisstjórn sem vogar sér að gefa þegnunum sínum ekki kost á því að leita sér heilbrigðisþjónustu er ríkisstjórn sem ekkert samfélag vill hafa. Í fjáraukalögum er hægt að biðja um heimild upp á 6 milljarða kr. til að fjárfesta í gullhöllinni hérna niðri á Austurbakka, „snobbhill“ eins og ég kalla það, nýja Landsbankahúsinu á dýrustu lóð á landinu og þótt víðar væri leitað. Þessir 6 milljarðar eru meira en kostar að byggja allt klabbið í kringum Alþingishúsið, nýju viðbygginguna þar sem allt starfsfólk, allir þingmenn, allar fastanefndir munu verða; þar sem verið er að hagræða í kringum okkur. Það tekur bara örfá ár að greiða niður leiguna sem þingið er að greiða fyrir húsnæði handa okkur hér allt í kring. En þessi ósk um 6 milljarða til að fjárfesta í þessari glæsihöll, það eru fleiri krónur en öll nýja viðbyggingin við Alþingishúsið kostar. En þegar verið er að fara fram á 60.000 kr. eingreiðslu fyrir fátækasta fólkið fyrir jólin þá þarf maður að stála alla hífa og berjast hér eins og Zorro til að reyna að hjálpa þessu fólki þannig að það geti þó a.m.k. keypt sér eitt lambalæri sem kostar orðið hátt í 10.000 kr. Þrátt fyrir að þetta fólk eigi bágt allan ársins hring er það einhvern veginn svo að í hjarta okkar, það er hefðin, það er í sál okkar, eru jólin fjölskylduhátíðin, tíminn þegar við viljum vera með fjölskyldum og vinum. Við viljum gleðjast, borða saman góðan mat og helst geta gefið einhverja litla gjöf, geta glatt hvert annað. Geta fátækir foreldrar gert það, getur einstætt foreldri gert það, getur verkamaðurinn gert það, láglaunamaðurinn? Nei, hann getur það ekki.

Ég tala af eigin reynslu. Ég veit hvað það er að berjast í bökkum með börnin mín fjögur og eiga erfitt með að fá mat á diskinn á hverjum degi. Það er ekki að ástæðulausu að hjarta mitt brennur fyrir því að hjálpa þeim sem eiga bágt. Ég á ekki í neinum vandræðum með að setja mig í þessa skó. Ég þarf ekki að stíga niður úr fílabeinsturni eða glerkastala niður á jörðina til fólksins sem við erum að berjast fyrir. Ég hef staðið þar og ég stend þar alltaf, það mun aldrei breytast og því mun ég aldrei gleyma. Ég trúi ekki öðru en að þetta frumvarp renni í gegn og utan um það verði tekið, að það sé eitthvað sem heitir skilningur, mannúð og gæska gagnvart þeim sem eiga bágast í samfélaginu.

Ég segi bara: Það er löngu orðið tímabært að taka heildstætt utan um þann vaxandi vanda og þá vaxandi fátækt sem er í samfélaginu. Það eru ekki bara tannlækningar sem eldri borgarar, þeir sem eingöngu eru á bótum almannatrygginga, öryrkjar og fátæk börn fá ekki, það er ekki bara það. Það er víða annars staðar í kerfinu, eins og ég nefndi, þar sem fólk virðist ekki einu sinni tala saman, þar sem því virðist bara vera nákvæmlega sama. Ég hef stundum haft það á tilfinningunni að þau viti varla hvað þau eru að gera. Ég trúi því ekki að það sé eingöngu út af mannvonsku sem fátækt fólk getur ekki leitað sér tannlæknaþjónustu. Ég trúi því ekki að það sé vegna mannvonsku eða fordóma í samfélaginu sem fíklar og alkóhólistar deyja á biðlistum.

Virðulegi forseti. Það er í okkar höndum, löggjafans, að sjá til þess að þessi mál fái farsælan endi. Það er í okkar höndum að taka utan um okkar minnstu bræður og systur og láta þeim líða vel í samfélaginu með okkur öllum.