Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er alveg rétt, þetta hefur náttúrlega komið til umræðu innan nefndarinnar og andmælaréttur er að sjálfsögðu mjög mikilvægur. Eins og ég rakti í minni ræðu og eins og kemur fram í álitinu þá var við meðferð málsins í nefndinni rætt um 10. mgr. 10. gr. frumvarpsins sem mælir fyrir um að ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um andmælarétt gildi ekki um ákvörðun um synjun, ógildingu eða afturköllun ferðaheimildar. Eins og kom fram áðan er meginregla andmælaréttar stjórnsýslulaga sú að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum máls afstaða hans eða augljóslega sé óþarft að hann tjái sig. Þegar aðila er hins vegar ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafi bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Ég held að þetta skýrist nú ágætlega hér.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki sé hægt að tryggja þennan rétt með einhverjum hætti. Ég held að meiri hluti nefndarinnar hafi komist að þeirri niðurstöðu að að hér sé í raun og veru til staðar sá kostur á að kynna sér upplýsingar og tjá sig um þær þannig að ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af þessu sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega. Við erum í þessu Schengen-samstarfi og hér er verið að samræma reglur sem munu gilda á Schengen-svæðinu. Við vorum þátttakendur í því.