Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér sýnist ekki af þeim reglum sem við erum að innleiða að okkur beri skylda samkvæmt þessu Schengen-regluverki til að firra fólk andmælarétti í þessu ferli. Það virðist mér vera eitthvað sem við leyfum okkur að gera. Í svari ráðuneytisins við þeim ábendingum sem komu frá umsagnaraðilum um að þarna væri verið að skerða ákveðin grundvallarréttindi fólks gagnvart stjórnsýslunni, þ.e. að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar til stendur að hafna beiðni þeirra, var nefnt að stjórnsýslulögin væri ekki ófrávíkjanleg og fyrir hendi væru í lögum nú þegar frávik frá andmælarétti stjórnsýsluréttar. Það vakti athygli mína að öll þau dæmi sem ráðuneytið nefndi voru úr lögum um útlendinga. Það virðist sem það þyki auðveldara og eðlilegra að skerða þessi réttindi þegar kemur að útlendingum og þeirra umsóknum um hitt og þetta. En mig langar til að ítreka svolítið spurninguna til hv. þingmanns um hvort það sé eitthvað í þessum reglum og þessu kerfi sem komi í veg fyrir það að við gefum fólki tækifæri til þess að andmæla. Við vitum t.d. að langalgengasta ástæðan fyrir því að fólki er synjað um vegabréfsáritun er sú að það er talin hætta á því að það muni ekki fara aftur, þegar það er komið inn fyrir landið. Þegar um er að ræða áritunarfrelsi er það í rauninni ekki heimil ástæða en þarna hafa stjórnvöld ákveðið, ég ætla að leyfa mér að segja geðþóttavald til að segja nei án þess að fá nokkrar skýringar frá viðkomandi. (Forseti hringir.)

Þá langar mig aðeins að bæta við þetta: Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því, ef einstaklingur er að koma til Íslands (Forseti hringir.) vegna t.d. jarðarfarar, ef við nefnum það, eitthvað sem er mjög viðkvæmt upp á tíma, að kæruferlið tekur þrjá mánuði? (Forseti hringir.) Telur hann kæruheimildina nægjanlega til að tryggja réttindi fólks sem ætlar að ferðast til Íslands t.d. til að mæta í jarðarför?

(Forseti (OH): Ég vil minna hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)