Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður hefur ágætisþekkingu á þessum málaflokki og er það vel og margt áhugavert hefur komið fram hjá hv. þingmanni í nefndarstörfunum sem er mikilvægt í þeirri umræðu allri sem við höfum átt innan nefndarinnar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það. Eins og ég nefndi áðan í ræðunni þá teljum við það fullnægjandi, ef um ný gögn er að ræða eða nýjar upplýsingar eða aðrar upplýsingar sem eru viðkomandi í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn máls, að þá er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Hv. þingmaður nefnir hérna svolítið sérstakt tilvik. Ef viðkomandi er kominn til landsins til að sækja jarðarför þá held ég að það væri nú hægt að greiða götu hans hvað það varðar. En hvað andmælaréttinn varðar almennt þá teljum við að eins og staðið er að þessu í þessu frumvarpi þá sé það bara í fullu samræmi við það sem ríkin sem eiga aðild að Schengen-samstarfinu eru að gera og mikilvægt að við fylgjum því og það er náttúrlega tilgangur þessa frumvarps. Ég hef ekki þær áhyggjur sem hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega í þessu sambandi. En að sjálfsögðu er alveg réttmætt að ávarpa áhyggjur af þessu tagi. Ég nefni það hér að þetta er nefndarálitið og við eigum eftir að fara í 3. umr. þessa máls. Að öðru leyti vil ég bara ítreka að hér erum við að samræma reglur við samstarfslöndin okkar í þessu samstarfi.