Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

lögfræðiálit lífeyrissjóðanna um ÍL-sjóð.

[11:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er svolítið áhugaverð nálgun og það má alveg velta því fyrir sér hvort ástæðuna fyrir áhugaleysi stjórnarþingmanna, þar með talið í hv. fjárlaganefnd, megi rekja til þess að þetta sé álitið, af samstarfsflokkum. hæstv. ráðherra, bara eitthvað til innanhússbrúks. Það var einhver fundur í vikunni á eftir, kannski hefur verið talað um það þar. En ég verð reyndar að segja að ef svo er þá finnst mér það enn ein vísbendingin um virðingarleysi gagnvart þingstörfum ef svo er vegna þess að þetta er náttúrlega risamál, eins og hér hefur komið fram, t.d. hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur sem fór vel yfir það hverjir það raunverulega eru sem eiga hagsmuna að gæta. Hugtök á borð við eignarrétt og mikilvægi hans koma hérna inn. Það er náttúrlega sögulegt hvaða stjórnmálamaður það var sem ljáði fyrst máls á þessum breytingum. En hvað sem öllu líður þá eru þessi vinnubrögð orðin það algeng (Forseti hringir.) að ég óska eftir því að teknir verði til endurskoðunar möguleikar þingnefnda á því að fá aðkeypt lögfræðiálit, bara til að hafa vaðið fyrir neðan sig. Það vað vantar óþægilega oft hjá einstaka ráðherrum.