Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta mál sem komið er hingað með svo stuttum fyrirvara og þarfnast svo skjótrar afgreiðslu eiginlega sýna kjarnann í gagnrýni þeirra sem talið hafa núverandi fyrirkomulag varðandi útreikning veiðigjalda meingallað, eða núverandi fyrirkomulag á því hvernig við finnum út úr því hvað sé eðlilegt og sanngjarnt að stórútgerðin greiði fyrir afnot af þjóðarauðlindinni. Það verður tími til að ræða það frekar.

Fyrir ríflega 20 árum lagði auðlindanefnd, sem þá var ætlað að skoða sátt í sjávarútvegi, til að farin yrði leið tímabundinna nýtingarsamninga. Stjórnendur stórútgerðarinnar höfnuðu þeirri leið og fengu sínu framgengt. Nýleg könnun á líðan og sjálfsmynd stórútgerðarinnar sýnir að það hefur ekki beint verið — ég ætla ekki segja að það hafi ekki verið ferð til fjár fyrir hana, það var þetta vissulega — til að bæta andlega líðan þeirra, svo ég orði það þannig. (Forseti hringir.) Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra sem er nú á fullu með vinnuna í Auðlindinni okkar (Forseti hringir.) þar sem ég á m.a. sæti: Treystir hún sér til að ná í gegn raunverulegum breytingum?