Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það var seint í desember árið 2020, í miðjum heimsfaraldri, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir frumvarpi sem átti að hvetja til fjárfestinga. Frumvarpið fjallaði um skattalegar ívilnanir þannig að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri væru hvattir til að fara út í fjárfestingar. Það voru miklar áhyggjur í þessum sal af því að í Covid-faraldrinum færi efnahagslífið allt á hliðina og hvetja þyrfti til fjárfestinga til að hjólunum yrði áfram haldið gangandi. Það var gert með ýmsum leiðum en m.a. með þessu frumvarpi um skattalegar ívilnanir, þ.e. hraðari fyrningar eigna fyrir fjárfestingar sem yrði farið í á árunum 2021–2022. Þetta frumvarp, sem varð síðan að lögum, lítillega breytt þó, átti að taka til 1.–4. töluliðar 37. gr. um tekjuskatt og þá um leið til 1. gr. sem fjallar um fjárfestingar í skipum. Það var mikil jákvæðni gagnvart þessu frumvarpi, sérstaklega vegna þess að þarna var lögð mikil áhersla á grænar fjárfestingar og ívilnanir þegar fjárfest væri í þá átt. Í efnahags- og viðskiptanefnd var aldrei, alla vega ekki á þeim fundum sem ég sat, við vinnslu þessa frumvarps talað um veiðigjald eða þau lög í því sambandi. Minn skilningur var sá, og stuðningur Samfylkingarinnar var við það markmið frumvarpsins og laganna, að hvetja ætti til fjárfestinga í heimsfaraldri þar sem efnahagslífið var ekki í góðum málum og einkum og sér í lagi að hvetja til grænna fjárfestinga. Okkur datt ekki í hug, leyfi ég mér að segja, að túlka mætti þau lög þannig að um leið og búið væri að hvetja útgerðarmann til að fara út í fjárfestingar, og hann fengi þar skattalegar ívilnanir, þá myndi það um leið þýða að það væri ekki bara hann sem fengi skattalegar ívilnanir heldur allir aðrir sem greiða veiðigjöld yfir höfuð vegna þess að reikniverkið í kringum veiðigjöldin er þannig hannað.

Mér finnst, frú forseti, augljóst með bráðabirgðaákvæðið sem samþykkt var hér í apríl 2021, um hvata til fjárfestinga, að líta eigi fram hjá því þegar veiðigjöldin eru ákveðin. Það var vilji löggjafans, það var andi laganna og það getur hver maður séð sem les frumvarpið, nefndarálitin og þeir sem voru í efnahags- og viðskiptanefnd muna eftir umræðunum þar. Þess vegna eru það ákveðin vonbrigði að inn í þingið núna komi það frumvarp sem hæstv. matvælaráðherra var að mæla fyrir áðan sem rennir stoðum undir þá túlkun að hvatningin til fjárfestinga í útgerð á erfiðum tímum í heimsfaraldri eigi að hafa áhrif á lækkun veiðigjalda. Það var alls ekki vilji löggjafans. Mér finnst það vera dagljóst. Þess vegna hljótum við að setja stórt spurningarmerki við þá framkvæmd sem virðist eiga að festa í sessi með frumvarpinu sem við ræðum hér, að láta bráðabirgðaákvæðið sem samþykkt var í apríl 2021 hafa áhrif á ákvörðun veiðigjalda.

Auðvitað segi ég, sem er óánægð og ósátt við reikniverkið sem er undir ákvörðun veiðigjalda, að þetta sýni skýrt hversu gallað það reikniverk er en málið sem við ræðum er afleiðing ákvæða laga um veiðigjald um ákvörðun fjármagnskostnaðar til frádráttar frá gjaldstofni. Ég tel þetta bæði órökrétt og ómálefnalegt og við ættum að nýta tímann til að finna frekar út úr því hvernig við getum rennt stoðum undir anda laganna, um hvatningu til fjárfestinga, frá því í apríl 2021 og vilja löggjafans í þeim efnum. Þess vegna finnst mér mikilvægt að fá álit á þessu og á fundi atvinnuveganefndar í morgun kallaði ég, ásamt fleirum í þeirri ágætu nefnd, eftir lögfræðiáliti sem færi yfir þennan möguleika og þá túlkun laganna um hvata til fjárfestinga að þau ættu ekki við ákvörðun veiðigjalda. Hér virðast menn telja að ekki sé hægt að komast hjá því, þarna hafi löggjafinn einfaldlega gert stórkostleg mistök því það er umtalsvert fjárhagslegt tjón fyrir ríkissjóð að þessar skattalegu ívilnanir, til að hvetja útgerðarmenn til að fjárfesta í skipum, hafi síðan þessi áhrif á veiðigjöldin. Frumvarpið sem hæstv. matvælaráðherra var að mæla fyrir áðan er ekki um að lækka veiðigjöldin heldur til þess að draga úr sveiflum, til þess að lækkunin komi ekki öll inn á árinu 2023 heldur verði þetta sveiflujafnað. Þau lög, verði frumvarpið að lögum, eru ekki um neitt annað. Þau eru ekki um að hækka veiðigjöld. Þau eru um að fletja út þessar sveiflur sem eru áhrif af túlkun laganna sem samþykkt voru í apríl 2021 um hvatningu til fjárfestinga.

Ef ekki er vilji til þess eða lagatúlkunin er svo grjóthörð og ísköld að ekki sé hægt að meta anda laganna eða vilja löggjafans í þeim efnum og ekki sé nóg að segja að bráðabirgðaákvæðið í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, eigi ekki við um veiðigjald, þá segðum við í staðinn, ef við komumst ekki hjá því, að við munum bara breyta veiðigjöldunum þannig að í stað ákvæðisins, um að til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljist skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar og áætluð vaxtagjöld sem nema skulu sömu fjárhæð og fyrningarnar, kæmi eitthvað á þá leið að um fjármagnskostnað útgerðar skuli miða við reiknaða ársskýrslu Hagstofu Íslands í stað núverandi ákvæðis. Þetta gæti verið bráðabirgðaákvæði fyrir árið 2023. Og eins og fram hefur komið hér fyrr í umræðunni þá er auðvitað verið að vinna að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og m.a. koma veiðigjöldin og ákvörðun þeirra þar undir. Það væri því hægt að gera eitthvað slíkt bráðabirgðaákvæði sem gilti bara um reikning veiðigjalda fyrir árið 2023 en síðan gætum við farið betur ofan í saumana á þessu máli.

Frú forseti. Ég mun auðvitað tjá mig betur um þetta mál þegar vinnslan í atvinnuveganefnd fer fram á morgun og um helgina og á mánudaginn áður en málið kemur aftur til 2. umr. Ég skil ósköp vel að hæstv. matvælaráðherra vilji að þetta frumvarp verði afgreitt fljótt og vel og ég veit að sá hæstv. ráðherra er ekki að biðja alla um að samþykkja það heldur að hleypa því í gegn þannig að hægt sé að fletja út kúrfuna. En ég vil segja, og ég vona að ég hafi komið máli mínu nokkuð skýrt á framfæri, að ég tel að bráðabirgðaákvæðið sem samþykkt var við lög um tekjuskatt í apríl 2021 til að hvetja til fjárfestinga hafi ekki verið hugsað til þess að lækka veiðigjöld. Það var ekki það sem við vorum að gera. Við vorum að hvetja til fjárfestinga og einkum grænna fjárfestinga í miðjum heimsfaraldri þegar við höfðum áhyggjur af því að efnahagslífið væri að fara á hliðina og samþykktum hér í þessum sal alls konar ívilnanir til þess að reyna að halda hjólum samfélagsins gangandi á þeim erfiðu tímum. Þetta, að hvetja til fjárfestinga, var eitt af því. Það var aldrei minnst á veiðigjöld í því sambandi.