Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:13]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðu hennar sem mér finnst um margt hafa verið áhugaverð. Það vakti mig til umhugsunar þar sem ég sat niðri á skrifstofu og var að horfa á sjónvarpið, að hún lauk ræðu sinni á að tala um að á árinu 2021 hefði verið farið í hvata til fjárfestingar sem átti að vera til þess að hjálpa samfélagi, sem var í mikilli neyð, að viðhalda því atvinnustigi sem þá var og koma í veg fyrir að fólk lenti á götunni vegna atvinnuleysis. Síðan hefur það einhver önnur áhrif sem fólk var ekki upplýst um. Mig langar að fá svolitla umræðu um það hver grunnurinn getur verið fyrir útreikningi veiðigjalda. Þarna hafa afskriftir greinilega áhrif þegar veiðigjöld eru reiknuð. Maður veltir fyrir sér, af því að verið er að búa til ársreikninga fyrirtækja af endurskoðendum úti í bæ og það er hægt að setja alls konar inn í slíka ársreikninga, afskriftir og hægt að færa til gjalda ýmsa hluti, hver grunnurinn getur verið fyrir útreikningi veiðigjalda. Er þessi grunnur sem hér er verið að tala um ekki algerlega fáránlegur þegar kemur í ljós að við það að búa til fjárfestingahvata þá missum við veiðigjöld samhliða?