veiðigjald.
Frú forseti. Við erum að ræða þessa breytingu á lögum um veiðigjald, framkvæmd fyrninga, sem kemur óvænt og hratt inn í þingið. Eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra og annarra er verið að draga úr sveiflum á upphæð veiðigjalds. Verið er að bregðast við víxlverkun á milli tiltekins ákvæðis laga um veiðigjald og tiltekins ákvæðis bráðabirgðaákvæðis í lögum um tekjuskatt sem heimilar að fyrna m.a. skip og skipsbúnað um 50% ári vegna fjárfestinga á árunum 2021 og 2022. Þetta er Covid-aðgerð og í ljós kemur að þetta tiltekna ákvæði leiðir til lækkunar veiðigjalda verði ekkert að gert og um það snýst málið.
Mig langar að byrja á að taka fram að ég sit í atvinnuveganefnd sem hefur málið nú til meðferðar og við höfum þegar fengið ráðherra og ráðuneytið til okkar. Ég tek undir það sem hv. þm. Oddný Harðardóttir sagði hér fyrr um að við ættum eftir að fá úr því skorið, a.m.k. að okkar mati, hvort þetta bráðabirgðaákvæði í lögum um tekjuskatt sem ætlað var að ýta undir fjárfestingar vegna Covid-aðstæðna hafi óhjákvæmilega þessi áhrif á lög um veiðigjald, vegna þess að það er sannarlega ekki í anda laganna. Við höfum rætt um að fá lögfræðiálit um það hvort þessi víxlverkun sé óhjákvæmileg og þetta mál þar af leiðandi nauðsynlegt. Það verður þá m.a. verkefni atvinnuveganefndar næstu daga að fjalla um það mál.
Þetta tiltekna mál kjarnar að mínu mati gagnrýni þeirra sem telja núverandi fyrirkomulag veiðigjalda afspyrnuvont. Flækjustigið er slíkt að það er nær ómögulegt að átta sig á hvenær og hvort þau fyrirtæki sem sinna eða sýsla með þá þjóðareign landsmanna sem fiskveiðiauðlindin er, eru að greiða sanngjarnt afgjald fyrir það eða ekki. Mögulega er það kostur í augum einhverra en ég hygg, ekki síst þegar ég lít til afstöðu þjóðarinnar til stöðu mála, að flestum þyki það galli og því þarf einfaldlega að breyta.
Frá tilkomu kvótakerfisins hafa ríkt deilur um meðferð auðlindarinnar og þeirra starfa og verðmæta sem hún skapar, þ.e. hver ávinningurinn er og hvert hann rennur. Veiðigjöldin voru á sínum tíma tilraun til að draga úr viðvarandi óánægju með aukinni gjaldtöku en þau eru þó því marki brennd að vera flókin og ógagnsæ og, það sem ekki síst er ókostur, háð duttlungum stjórnvalda. Þannig hafa þau t.d. ítrekað verið lækkuð í tíð sitjandi ríkisstjórnar en það er líka hægt að hækka þau. Það er hægt að taka pólitíska afstöðu til veiðigjalda frá ári til árs og þess vegna höfum við í Viðreisn talað fyrir markaðsleiðinni samhliða tímabindingu veiðiheimilda, ekki endilega og eingöngu af því að við sjáum fyrir okkur að það muni hækka veiðigjöldin heldur myndi þessum pólitísku afskiptum ljúka og markaðurinn — framboð og eftirspurn — ráða verði.
Síðasta lækkun veiðigjalda og sú sem þetta frumvarp tengist er tilkomin vegna Covid-aðgerða. Árin 2020–2021 var gerð breyting á lögum um tekjuskatt sem hafði í för með sér skattafslátt fyrir fjárfestingu. Hugmyndin var auðvitað að halda efnahagslífinu gangandi og þótt stutt sé um liðið þá held ég að mögulega sé farið að fenna yfir það hjá sumum okkar hvernig ástandið raunverulega var, hvað við héldum að væri fram undan og hvað við litum á sem verstu mögulegu útkomu, sem væri jafnvel ekkert sérstaklega ólíkleg. Því fóru mjög mörg mál hratt í gegn. Það markmið að halda efnahagslífinu gangandi var bæði jákvætt og verðugt, en svo gerist það núna tveimur árum síðar núna að stjórnvöld, hæstv. matvælaráðherra og hennar fólk í ráðuneytinu, átta sig á að breytingin er ekki eingöngu til lækkunar á skatti eins og hugmyndin var heldur líka, vegna víxlverkunar laga, til lækkunar á veiðigjöldum um 2–3 milljarða á ári. Með öðrum orðum þá lækkar hvati til fjárfestinga, vegna fordæmalausrar efnahagsniðursveiflu í Covid, veiðigjöldin sem stöndugustu útgerðarfyrirtæki landsins greiða.
Svo því sé haldið til haga þá verður þetta leiðréttingarfrumvarp ekki þess valdandi að þessi milljarðaafsláttur á veiðigjöldum gangi til baka. Það er eingöngu verið að dreifa afslættinum, ef svo má segja, á fimm ára tímabil og fletja kúrfuna út. Það er skiljanleg ákvörðun hjá hæstv. matvælaráðherra þótt best væri að hún þyrfti ekki að standa í þessu. Þetta bætir stöðu fjárlaga næsta árs og það vita allir að ekki veitir af. En hafa þarf í huga að þetta verður dregið af veiðigjöldum næstu fimm ár á eftir í fimm jöfnum árlegum greiðslum, ef ég skil greinargerð frumvarpsins rétt. Ef um er að ræða 2,5 milljarða aukalega inn í fjárlög næsta árs þá dragast 500 milljónir af veiðigjöldum næstu fimm ár á eftir. Það er líklegast seinni tíma vandamál.
Það er líka rétt að nefna í þessu samhengi, úr því að við erum að tala um veiðigjöld á þessum tíma, að sjávarútvegur er ein þeirra atvinnugreina sem jók útflutningstekjur sínar í kórónuveirufaraldrinum. Rökin fyrir sérstökum, afar margþættum og kostnaðarsömum opinberum stuðningi einmitt til þeirra fyrirtækja eru hæpin. Því tel ég mikilvægt að þetta lögfræðiálit komi fram sem ég nefndi í upphafi og hv. þm. Oddný Harðardóttir nefndi.
Í upphaflegum drögum þessa frumvarps, eins og þau komu frá ráðuneytinu, var gert ráð fyrir að listi yfir þá sem nýttu sér þessa leið yrði gerður opinber og það væri ljóst hvaða fyrirtæki nýttu sér þessa aukafyrningarleið. Því var hins vegar breytt í meðferð ríkisstjórnarflokkanna þriggja þrátt fyrir aðvaranir Skattsins og listinn var ekki gerður opinber. Jón Steindór Valdimarsson, þáverandi þingmaður Viðreisnar sem sat í efnahags- og viðskiptanefnd, samþykkti málið með þeim fyrirvara að honum þætti þessi listi eiga að vera opinber eins og Skatturinn lagði til. Auðvitað er það rétt að ekki hefði skipt öllu máli hvort svo væri nema að því leyti að mögulega hefðu viðvörunarbjöllurnar, sem líklega hafa byrjað að klingja við vinnslu fjárlaga næsta árs þegar kom í ljós að eitthvað skorti upp á veiðigjöldin sem reiknað hafði verið með, hringt fyrr og leitt til þess að þingið hefði ásættanlegan tíma til að vinna þetta mál — en svo fór það.
Það er líka vert að hafa í huga að mér finnst í hæsta máta ólíklegt, í tilfelli þeirra fyrirtækja sem áttu rétt á þessum afslætti vegna stórra fjárfestinga í skipum, að þau kaup hafi orðið vegna þessa ákvæðis. Þau ráðast í slíkar fjárfestingar að undangengnum einhverjum aðgerðum og með einhverjum fyrirvara. Með öðrum orðum þá finnst mér líklegt — þetta er eitthvað sem ég á eftir að fá betur uppgefið í vinnslu nefndarinnar — að hér sé um fullkominn happdrættisvinning að ræða, mögulega óvæntan, til þessara stóru útgerðarfyrirtækja. Það er kannski eitthvað sem vel má rökstyðja að gangi hraustlega gegn anda þeirra laga sem sett voru hér í miðju Covid-fárinu til að aðstoða fyrirtæki sem reru lífróður og voru jafnvel hálfsokkin með manni og mús.
Þetta þarf alls ekki að vera svona. Það er ekki lögmál að veiðigjöld séu flókin og ógagnsæ. Við í Viðreisn höfum frá stofnun lagt mikla áherslu á breytta nálgun í sjávarútvegsmálum og við byggjum stefnu okkar m.a. á þeirri vönduðu vinnu sem auðlindanefndin svokallaða frá árinu 2000 skilaði af sér og þeim nefndum sem síðar hafa starfað, þar sem í öllum tilfellum hefur verið talað um tímabindingu aflaheimilda sem leið til lausnar á þeirri klípu sem við erum í núna og sem leið til að brúa hina torfæru gjá á milli þings og þjóðar í þessu máli. Tímabindingin er grundvöllur þess að hægt sé t.d. að setja á fót markaðsleið í sjávarútvegi, bjóða t.d. upp 5% aflahlutdeild á ári með nýtingarrétti til 20 ára, í stað hinna pólitísku veiðigjalda. Því hámarkar skýr, tímabundinn afnotaréttur þjóðhagslega hagkvæmni veiða og endurspeglar auk þess með ótvíræðum hætti eignarrétt þjóðarinnar. Í umræðunni í dag hafa fyrirheit og vilji komið fram um að þetta verði meðal þess sem verður rætt, þ.e. fyrirkomulag á greiðslu fyrir nýtingu aflaheimilda, í vinnu nefndar hæstv. matvælaráðherra sem heitir Auðlindin okkar. Margir eiga þar sæti, þar á meðal sú sem hér stendur. Við viljum finna framtíðarlausn sem er til þess fallin að leysa áratugalangar deilur. Það er ekki bara almenningur sem er kominn með upp í kok af þessum deilum, óvissan er líka vond fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Pólitísk óvissa er alltaf vond. Ég ætla að leyfa mér að vitna í Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Vinnslustöðinni, með leyfi forseta, þar sem hann segir:
„Það er ekki að ástæðulausu sem fyrirtækjum fækkar í sjávarútvegi, einstaklingar í útgerð, sem eiga allt sitt undir pólitíkinni, lifa í stöðugri ógn við að kerfinu verði breytt eða að þeir verði skattlagðir meira.“
Þessi orð falla í samtali við fjölmiðla í kjölfar frétta af rannsókn sem Kristján Vigfússon, kennari við Háskólann í Reykjavík, vann þar sem kom fram að æðstu stjórnendur stærstu útgerðarfyrirtækja á Íslandi væru mjög óánægðir með starfsumhverfi sitt. Þar kemur fram að hávær og neikvæð pólitísk umræða um sjávarútveg og þar með óvissa um framtíð greinarinnar hefur mikil og vond áhrif að mati útgerðarmanna. Ég segi að þá væri talsvert betra ef kostnaðurinn væri ákveðinn á grundvelli markaðslögmála líkt og í öðrum atvinnugreinum. Hvers vegna telja t.d. stjórnvöld best að lögmál markaðarins ríki í verslun, á fasteignamarkaði, í flugi og raunverulega alls staðar annars staðar en í sjávarútvegi? Það eru engin haldbær rök fyrir því nema fortíðin og langflest erum við ekki beinlínis sátt við hana.
Við erum hér að ræða þetta tiltekna mál og við í Viðreisn erum ekkert sérstaklega á móti því. Við skiljum að það þurfi að draga úr þeim skaða sem þegar hefur orðið eða a.m.k. dreifa honum yfir lengri tíma. Eins og ég nefndi áðan þá er allt sem getur bætt fjárlög ríkisins fyrir næsta ár a.m.k. þess virði að ræða af fullri alvöru, slík er staðan.
Í lokin ætla ég að fá að vitna í orð hæstv. matvælaráðherra í andsvörum hér áðan. Þetta er ekki veiðigjaldamálið með ákveðnum greini, sannarlega ekki, og þetta er ekki leið til að gera ósanngjarnt kerfi loksins sanngjarnt. Þetta er ekki tækifærið okkar til að skapa langþráða sátt. Það tækifæri kemur síðar, vonandi strax í næstu viku, vegna þess að þetta er tækifæri til að ræða enn og aftur að við þurfum að breyta þessu kerfi.