veiðigjald.
Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma stuttlega upp í þessari umræðu þrátt fyrir ágætisumræðu hingað til og þar með talið frá samflokkskonu minni, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, sem fór mjög vel yfir málið. Mig langar að ræða aðeins þá stöðu sem upp er komin vegna fyrninga og áhrifa þeirra á veiðigjaldsstofn. Þetta hlýtur að vekja okkur almennt til umhugsunar um eðli veiðigjaldsstofnsins algerlega óháð þessu bráðabirgðaákvæði. Það sem slær mig, sem sat ekki hér á þingi þegar lögin voru sett árið 2018 og veiðigjaldalögum var breytt og þessi sérstaka Covid-aðgerð kom til, er að þetta sé að uppgötvast svona seint. Fyrir mér er það til marks um að stjórnvöld og hæstv. ríkisstjórn hafi ekki sjálf haft skilning, í raun þar til nýlega, á því hvaða áhrif fyrningar hafa á svona gjaldstofna. Mér finnst þetta mjög alvarleg athugasemd sem varpað er upp vegna þess að við hljótum að gera þá kröfu að fólk hafi tilfinningu fyrir því hvernig samspili þessara þátta sé háttað.
Við heyrum að ástæðan fyrir því að þetta kemur fram með svona litlum fyrirvara sé að þau hafi þurft að sjá rauntölur til að sjá áhrifin af þessu. Það er mjög athugavert í því samhengi að sérstaklega var ráðist í þær breytingar 2018 á veiðigjaldsstofninum að auka verulega vægi fyrninga á stofninn. Þetta voru breytingar sem fólu það ekki bara í sér að almennar fyrningar eða afskriftir af skipum eru frádráttarbærar frá aflaverðmæti heldur líka að mat á vaxtagjöldum felur í raun í sér fyrningu. Ef ég orða þetta á auðveldari hátt: Í raun er bara tekin sú tala sem verið er að fyrna af skipum og svo er gert ráð fyrir að álíka kostnaður sé í vaxtagjöldum. Afskriftir sem eru frádráttarbærar tvöfaldast því.
Ég veit að þetta hljómar ekkert ofboðslega áhugavert í eyrum margra en þetta er veruleg breyting. Fyrir mér er það í raun óskiljanlegt að þessi leið hafi verið farin í mati á vaxtagjöldum. Þó að ég átti mig fyllilega á því að oft er erfitt að meta vaxtagjöld fyrir heila atvinnugrein breytir það því ekki að þetta er eina atvinnugreinin í landinu sem fær svona meðferð. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að þessi breyting 2018 tekur mið af því að sjávarútvegsfyrirtæki geti látið 10–20% af fjárfestingum sínum fyrnast, en venjuleg fyrirtæki í landinu horfa upp á fyrningu upp á 3–6%. Þetta er prósentuupphæð sem sést eiginlega hvergi annars staðar. Það var ekki nóg að gera þá fyrningu frádráttarbæra frá veiðigjaldsstofni heldur var ákveðið að tvöfalda þá fyrningu og kalla vaxtagjöldin, mögulega 10–20% af skipunum, sem allir hljóta að sjá að er algerlega út úr kú fyrir mörg þessara fyrirtækja, sérstaklega stórútgerðina sem starfar í allt öðruvísi umhverfi en restin af fyrirtækjunum í landinu. Þetta eru fyrirtæki sem hafa aðgang að erlendu fjármagni, erlendri lántöku á lágum vöxtum. Mér þykir þetta ekki eðlilegt mat á vöxtum í þessu samhengi og þetta er ekki réttlætanlegt ef við horfum til annarra atvinnugreina. Þessar fyrningarprósentur eru auðvitað eitthvað sem er inni í tekjuskattslögunum, hefur áhrif á tekjuskattsgrunn þessara fyrirtækja, en þetta skilar sér líka inn í veiðigjaldsstofninn. Mér þykir ótrúlegt að þegar þessi breyting var samþykkt hér af þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi ekki verið gerð athugasemd við þetta af ráðuneytinu. Kannski var viljandi horft fram hjá því en þetta hefur haft veruleg áhrif á veiðigjöldin.
Ef við veltum fyrir okkur framhaldinu í þessu samhengi hlýtur þetta að leiða til þess — og ég vona innilega að hæstv. sjávarútvegsráðherra taki mið af þessu í umræðuhópnum sem nú er til staðar. Ef vitneskja var ekki til staðar í ráðuneytinu um áhrif þessara fyrninga á gjaldstofninn þá er hún það núna og ég vona að þessu verði breytt í framhaldinu í almenna gjaldstofninum. Mér finnst ekki nóg að vakin sé athygli á þessu í tengslum við gjöld sem eiga að koma á næsta ári. Þetta er stórt vandamál.
Mig langar líka að benda á í þessu samhengi, vegna þess að það vilja allir eyða tortryggni úr þessari umræðu um sjávarútveginn sem verður seint gert en fullur vilji er fyrir, að það er heldur ekki svo, þó að einhverjar flýtimeðferðir á fyrningum séu leyfðar og talað sé um áhrifin af því að sjávarútvegsfyrirtæki geti fyrnt eignir sínar um 10–20% á meðan önnur fyrirtæki hafi 3–6%, að það þýði að fyrningunni ljúki á skemmri tíma og gjöldin muni svo hækka síðar meir. Það vita allir að ef þú ert í rekstri þá getur þú alveg átt við þær tölur, þú getur dregið úr gjalda- og tekjuskattsheimildinni síðar meir. Það er til að mynda heimild í tekjuskattslögunum sem hefur líka áhrif á veiðigjöldin, að söluhagnað eigna má fyrna. Ef ákveðið er síðar meir að selja sumar af þeim eignum sem búið er að fyrna þá kemur það líka inn í fyrningu og er frádráttarbært síðar meir.
Þetta er efni sem hefur ekki vakið mikla athygli vegna þess að þetta hljómar tæknilega flókið en þetta hefur gífurleg áhrif á tekjur ríkissjóðs af þessum lið. Ég ætla rétt að vona að þetta fari inn í framhaldsvinnuna. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja að á sínum tíma þegar þetta var samþykkt í veiðigjaldsfrumvarpinu 2018 — nú er ég ekki að tala um þessi sértæku Covid-úrræði — þá kom fram, með leyfi forseta:
„Við undirbúning frumvarps þessa lá ekki fyrir heildstæð samantekt um skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar frá embætti ríkisskattstjóra til hagnýtingar við gerð tekjuáætlana …“
Ég skil ekki hvernig hægt er að fara af stað í svona stórtækar breytingar á eðli gjaldstofns sem hefur svona gífurleg áhrif á tekjur ríkissjóðs og líka pólitíska meiningu í íslensku samfélagi án þess að yfirlit sé yfir það í ráðuneytinu hvaða áhrif það hefur á gjaldstofninn. Mér þykir það bara því miður óboðlegt.
Ég legg áherslu á að við í Samfylkingunni viljum að veiðigjaldsstofninn verði endurskoðaður frá grunni í ljósi þessa að þessi vitneskja virðist ekki hafa verið til staðar, um áhrif fyrninga. Þetta er algerlega óháð allri umræðu um eðli gjaldtöku í greininni og skipulag hennar og framtíðarhorfur. Við erum bara að tala um þennan stofn sem þó hefur verið sammælst um í dag. Ég ætla rétt að vona að ráðuneytið og hæstv. sjávarútvegsráðherra taki það til sín í vinnunni fram undan.