Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:04]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu. Ég verð að segja að þessi umræða sem hér á sér stað er fyrir margra hluta sakir mjög áhugaverð. Ég held að mörg okkar sem erum ný hér á þingi og jafnvel margir ellibelgir hér á þingi skilji ekki eðli veiðigjaldastofnsins, átti sig ekki á því hvernig þetta er allt saman gert. Við erum þessa dagana að ræða söluna á Íslandsbanka og maður heyrir orðin „opið“ og „gagnsætt“ einatt og yfirleitt í þeirri umræðu; að þar hafi ekki átt sér stað opið ferli og hlutirnir hafi ekki verið gagnsæir. Að mínu mati eru þessar reglur sem nýttar eru til að áætla veiðigjöld í þessu samfélagi bara mjög flóknar og erfiðar að skilja fyrir venjulegt fólk. Að það skuli vera hægt að leika sér með bæði vaxtagjöld og afskriftir á milli ára getur haft stórkostleg áhrif á það hvað þjóðin fær í sinn hlut af auðlind sem er sameiginleg eign þjóðarinnar. Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir það hvort hún sjái einhverja möguleika á því að breyta veiðigjaldastofninum eða er hreinlega rétt að taka upp aðrar aðferðir?