153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:06]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Að mínu mati fór allt of lítið fyrir þeim breytingum sem urðu á sínum tíma árið 2018 á veiðigjaldsstofninum. Nú er ég ekki að tala um það mál sem við erum að tala um í dag en þetta tengist því vegna þess að ef almennileg umræða hefði orðið um það á sínum tíma, og þessu hefði verið flaggað af ráðuneytinu og athygli vakin á því af hæstv. þáverandi ráðherra, þá hefði það kannski smitast inn í umræðuna um flýtifyrningar á Covid-tímanum. Við erum með mikilvæga auðlind sem skilar inn ákveðnum tekjum og gjöldum, sem þyrftu að vera hærri, en það sem er svo áhugavert við þetta er að gagnsæi varðandi gjaldahækkun er ekki meira en raun ber vitni. Annaðhvort er skilningurinn ekki til staðar meðal stjórnvalda eða það er viljandi verið að halda eftir þessum upplýsingum. Þetta er ekki jákvætt og þetta er til þess fallið að ala á tortryggni sem ég held að almennt sé ekki vilji til að gera. Ég ætla að leyfa mér að vona það. Það vekur upp þær spurningar á hvaða forsendum þessar breytingar voru gerðar á sínum tíma, hver ýtti undir þessar breytingar. Hvaðan kom þessi hugmynd um að hafa það í fyrsta lagi þannig í tekjuskattslögum alveg í grunninn að sjávarútvegurinn fái sérstaka heimild til að fyrna langtum meira en venjulegar atvinnugreinar? Það er ein spurning. Í öðru lagi að það hafi verið tekin ákvörðun um að taka þessa stóru og miklu fyrningu sem fyrirfinnst hvergi annars staðar og tvöfalda hana inn í gjaldstofninn. Það þykir mér mjög merkilegt. Varðandi það hvort hægt sé að breyta veiðigjaldsstofninum án þess að breyta í rauninni kerfinu alveg í grunninn þá held ég að það sé hægt og ég held að það sé mikilvægt að gera það. Við getum tekið eitt skref og það er eitthvað sem við þurfum að gera sem fyrst, ég myndi vilja sjá þá breytingu sem fyrst, þ.e. að það yrði annað mat til að mynda á vaxtagjöldum og fyrningarprósentan yrði öðruvísi en í veiðigjaldsstofninum. Það er fyrsta skrefið. Svo þarf auðvitað umræðu til lengri tíma og í millitíðinni um breytingar á sjávarútvegskerfinu í heild sinni.