Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:09]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umræðan um rentu af auðlind þjóðarinnar hefur átt sér stað um langa hríð og við erum ekki komin á leiðarenda með það. Þegar ég hlustaði á hv. þm. Oddnýju Harðardóttur hér áðan þá brá mér, að meira að segja hún, sem er reyndur þingmaður til fjölda ára, og hafandi verið ráðherra, áttaði sig ekki á því að þær breytingar sem voru gerðar í Covid myndu hafa þessi áhrif. Þetta var ekki bara aðgerð sem átti að vera hvati til fjárfestinga heldur hafði hún þær afleiðingar að veiðigjald lækkaði til viðbótar. Þetta vekur mann auðvitað til umhugsunar um hversu gott þetta kerfi er, hvort það þurfi ekki bara að stokka þetta alveg upp á nýtt. Ég vil bara spyrja, af því að hér er verið að leggja fram mál með afbrigðum, það á að taka þetta og klára á nokkrum dögum fyrir 1. desember, engar umsagnir: Er þetta ekki bara einhver barbabrella? Hverju er verið að redda? Ætlum við að sýna einhverja meðvirkni hér með því að samþykkja svona hluti til að láta það ekki koma í ljós hversu galnar þessar ákvarðanir voru á sínum tíma? Ætlum við að færa peninga sem hefðu annars komið seinna, í framtíðinni, yfir í nútímann og í raun og veru fela það hversu gallað þetta kerfi er?