Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og svo sannarlega sláum við ekki hendinni á móti því að það detti inn einhverjir milljarðar aukalega í ríkiskassann, þar tek ég algerlega undir með hv. þingmanni. En áferðin á þessu, fyrri framkvæmd og að þetta skuli vera komið hér inn í stað þess að kalla bara eftir hækkun á veiðigjöldunum, sem gæfi okkur jafnvel enn þá meira og kæmi ekki bara til á árinu 2023 heldur einnig 2024–2027 — að við myndum virkilega fá að njóta ágóðans af sjávarauðlindinni okkar. Þangað vil ég fara.

Þessi plástrataktík sem hér á sér stað vegna mistaka í þessum Covid-aðgerðum okkar minnir mig á plástrakerfi Tryggingastofnunar, eins og hv. þm. Halldóra Mogensen sagði. Ef upp kemur dálítill agnúi hér er reynt að laga hann þar og svo vindur allt í einu eitthvað annað upp á sig. Ég bíð spennt eftir að sjá hvað kemur í kjölfarið á þessu. Það hlýtur að vera einhver leynilína þarna sem hefur farið fram hjá manni og á kannski eftir að stinga í augu skömmu síðar.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ef þetta fer ekki inn núna munu þessir peningar færast til. En nei, við munum ekki týna þeim ef við fáum þá ekki inn á næsta ári. Það er alveg vitavonlaust því að ekki er verið að hækka veiðigjöldin um eitt einasta prósent heldur er bara verið að hliðra til og fletja út kúrfuna. Eins og ég sagði í morgun og segi enn þá finnst mér alveg ótrúlegt að við skulum vera að staglast á þessu hugtaki því að mér finnst ég bara vera komin í algjörar sóttvarnaaðgerðir með okkar góða þríeyki og þetta hugtak finnst mér núna hallærislegt hérna inni, í orðsins fyllstu merkingu. En 2,5 milljarðar eru vel þegnir. Ég vildi gjarnan að þeir væru 25, beinustu leið frá útgerðinni og bönkunum, og við værum virkilega að taka utan um alla sem eiga bágt.