veiðigjald.
Forseti. Þetta er áhugavert mál sem við glímum hérna við. Þetta er tilfærsla á fjármagni, tilfærsla á veiðigjöldum á milli ára. Við í þingflokknum fengum kynningu á þessu í gær og reyndum að komast til botns í því hvað er verið að gera hérna. Það er alveg skýrt að það er engin hækkun, það er ekki búist við að heildarveiðigjöld yfir nokkur ár verði eitthvað meiri eða minni heldur en myndi gerast án þessa frumvarps. Ef við myndum sleppa þessu frumvarpi þá yrðu heildarveiðigjöldin yfir nokkur ár nákvæmlega þau sömu. Það sem bætist við aukalega hins vegar með þessu frumvarpi er ákveðin áhætta vegna skaðabóta. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Það getur vel verið að þetta náist í gegn það séu 2,5 milljarðar færðir frá seinni árum yfir á næsta ár en eins og það er orðað þá er ágóði af því fyrir ríkið að fá peninginn fyrr en síðar, geta ávaxtað þá fyrir ýmis verkefni o.s.frv. Á sama hátt hlýtur það að vera tap fyrir þau sem eru að borga veiðigjöldin og sá munur gæti verið þessar skaðabætur. Hvernig það fer eða hvort það séu samningar um það eða eitthvað veit ég ekki. Það er annarra að útkljá það. En við skulum bara hafa í huga að þetta eru aðstæðurnar sem við erum að glíma við í þessu máli.
Þegar á heildina er litið hvað veiðigjöldin varðar þá þurfum við líka aðeins að átta okkur á kerfinu sem þetta mál fjallar um. Eins og er þá virkar það sem sagt þannig að veiðigjöld eru innheimt af hagnaði útgerðarinnar, hagnaði eftir kostnað. Það er ekki eins og hjá okkur hinum sem fáum mánaðarlaun og við borgum skatta áður en við borgum kostnað, ekki eftir að við borgum kostnað. Það er hægt að taka afskriftir og ýmislegt svoleiðis inn í reikninginn hjá útgerðunum áður en sagt er: Þetta er hagnaðurinn okkar þegar allt stendur eftir. Þetta er mjög merkilegt fyrirkomulag í rauninni. Ég spurði aðeins um þetta af því að það er litið á veiðigjöldin sem ákveðinn tekjustofn fyrir ríkið, tekjur fyrir aðgang að þessari auðlind. En — og hér er rosalega stórt en — ríkið leggur líka í kostnað til að sjá um þessa auðlind. Það er kostnaður vegna Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, Landhelgisgæslunnar og fleira. Þessi kostnaður er greiddur eftir að við fáum veiðigjöldin. Hann er ekki greiddur áður, eins og útgerðin fær að gera með afskriftir á skipum og ýmislegu svoleiðis. Það byrjar á því að útgerðin fær fullt af pening fyrir allan fiskinn sem hún fær að veiða í rauninni eins og hún vill, miðað við tillögur Hafrannsóknastofnunar, fær að gera eins mikil verðmæti úr þeim afurðum og hún mögulega getur, mismunandi innan vinnslu og veiða. Við erum varðandi veiðigjöldin aðeins að fjalla um arðsemissköpunina innan veiða en ekki vinnslu. Það er hægt að fara þarna smá á milli sem er varhugavert og hefur verið varað við. En innan veiðanna myndast ákveðinn hagnaður og það þarf að borga af olíu og laun og ýmislegt svoleiðis. Afgangurinn sem eftir stendur er hagnaður útgerðarinnar og af þeim hagnaði þarf að borga þriðjung í veiðigjald. Þessir þriðjungur fer til ríkisins sem þarf af þessum þriðjungi að borga Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Landhelgisgæslunni fyrir eftirlit og fleira, þannig að það saxast af þessum arði sem fer í kostnað hjá ríkinu á meðan hagnaðurinn er eftir kostnað hjá útgerðinni.
Hvað þýðir þetta í heildina? Ég bað um upplýsingar um þetta í kringum fjárlagavinnuna 2021. Þá kom í ljós að fyrir árið 2020 var heildarkostnaður ríkisins við rekstur vegna sjávarauðlindarinnar 6,1 milljarður kr. Hafrannsóknastofnun kostar 3,1 milljarð, Matís 48 milljónir, Fiskistofa 895 milljónir. Verðlagsstofa skiptaverðs 49 milljónir, alþjóðasamvinna 129 milljónir, skrifstofa fiskveiðistjórnunar 129 milljónir, MAST 84 milljónir og Landhelgisgæslan tæplega 1,7 milljarðar. Á sama ári fékk ríkissjóður 4.853 millj. kr. í veiðigjöld samkvæmt ríkisreikningi. Af þessum þriðjungi sem fæst með þessari leiðindareikniformúlu er þá 1,2 milljarða tap fyrir ríkissjóð vegna sameiginlegrar auðlindar landsmanna. Arður útgerðarinnar hins vegar af þessu var 9,7 milljarðar. Þetta er staðan sem við erum að glíma við. Ef við horfum á stærra tímabil alveg eins og við myndum horfa á stærra tímabil fyrir þetta frumvarp, ekki bara í rauninni næsta ár sem þessir 2,5 milljarðar eru að koma aukalega heldur á öll árin sem þetta hefur áhrif á, ef við horfum á árin aftur í tímann þá hafa veiðigjöldin flakkað upp og niður. Þau voru ansi gjöful eitt árið en tap t.d. árið 2020. Útkoman, þegar allt kemur til alls, hefur verið jákvæð upp á um 500 millj. kr. á ári, eða svo, á þeim sex árum sem ég spurði um, þ.e. gögnin voru frá árunum 2015–2020. Útkoman var mjög neikvæð fyrir ríkissjóð árið 2020. Að jafnaði hefur arður ríkissjóðs af veiðigjöldum á undanförnum árum verið 500 milljónir. Hversu mikla fjármuni erum við í rauninni að færa vegna þessa frumvarps yfir á næsta ár? 500 milljónir á ári á árunum þar á eftir. Það er meðaltalið á undanförnum árum. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga hvernig veiðigjöldin virka, hvað við erum að borga fyrir veiðigjöldin og hvað útgerðin er að fá í afgang — alveg heilan helling miðað við okkur. Þessi skipting eftir kostnað er eitthvað sem við þurfum að bera saman, arðurinn af sameiginlegri auðlind hjá hinu opinbera, hjá öllum landsmönnum, og eftir kostnað hjá útgerðinni. Þessi samanburður er sjaldnast gerður en þarna munar tífalt þegar allt kemur til alls að meðaltali á ári. Ég bið fólk um að hafa það í huga.
Þetta er, að mér finnst, óeðlileg skipting á arði. Ef við horfum t.d. til Noregs, ég er ekki með alveg beinar heimildir fyrir því en mér hefur verið sagt, og ég tek það trúanlegt, að arðsemin þar í olíunni t.d. sé einmitt öfug, að þar sé arður hins opinbera af skiptingunni tífaldur á við þá sem eru með vinnsluna. Það væri fínt að fá það staðfest einhvers staðar ef einhver hefur tölurnar um það. Við þurfum alla vega að tala um nákvæmlega þessa arðsskiptingu eftir kostnað hjá báðum þessum aðilum. Hún er ekki í lagi eins og er.
Hvað þetta frumvarp varðar þá finnst mér skrýtið að færa 500 milljónir bara yfir á næsta ár, sérstaklega með þá áhættu í huga sem því fylgir vegna skaðabóta. Hún verður líklega ekki eins mikil, ekki öll þessi upphæð heldur væntanlega bara fólgin í þeim fjármagnskostnaði sem þessari tilfærslu fylgir. En það er samt upphæð.