veiðigjald.
Herra forseti. Já, við erum stödd hérna í miðri umræðu um þetta sérkennilega mál, ætla ég að leyfa mér að segja. Ég tel ekkert ofmælt í því að það er mjög einkennilegt hvernig þetta allt saman gerist, að við séum í þeirri stöðu núna, í miklum hraða og flýti, að bregðast við því sem var verið að reyna að gera með sérstökum Covid-ráðstöfunum. Ég vildi gjarnan nefna að ef það hefði verið sagt á sínum tíma að þessar aðgerðir myndu leiða til þess að veiðigjöldin myndu lækka um einhverja milljarða þá er afar ólíklegt að það hefði orðið friður um þær Covid-aðgerðir. Þá er komið aftur inn í þessa djúpstæðu óánægju almennings með það hvernig þetta veiðigjaldakerfi okkar er og hversu háar fjárhæðir er verið að greiða fyrir að fá að veiða fiskinn í sjónum sem er sameign okkar Íslendinga allra. Þetta er deilumál sem er vel þekkt og hefur klofið þjóðina í herðar niður í áratugi en okkur gengið erfiðlega að finna einhverja lausn sem allir sætta sig við og kannski er hún ekki til. Það verður alltaf umdeilt hvernig á að ráðstafa takmörkuðum gæðum. Það á við í þessu tilfelli eins og öllum öðrum.
En hérna erum við sem sagt á þessum stað að bregðast við einhverri víxlverkun á milli lagaákvæða og við stöndum allt í einu frammi fyrir orðnum hlut, þetta er eitthvað sem enginn sá fyrir og um það má hafa mörg orð.
Það sem ég vildi nefna í þessu samhengi er hversu bagalegt það er að flækjustigið í þessu grundvallaratriði í íslensku samfélagi sé svo mikið að þegar farið er í sérstaka lagasetningu til að bregðast við einhverri ógn á einum stað þá leiði það með einhverjum hjáleiðum til þess að við erum allt í einu stödd hér og nú. Í raun og veru er þetta þannig að á sínum tíma sá enginn fyrir hvað myndi gerast, sem er auðvitað ótrúlega bagalegt. Það getur leitt okkur inn í umræðu um að þegar við erum í vinnu, t.d. hér í þinginu, þá sé þingið tiltölulega of mikið háð framkvæmdarvaldinu og ráðuneytunum um ýmsa sérfræðikunnáttu og annað í þeim dúr. Það er kannski miklu lengri umræða og vert að taka á öðrum stað en ég ætla kannski að fá að halda því samt til haga. Flækjustigið í því hvernig veiðigjöld eru ákvörðuð hefur leitt okkur nákvæmlega hingað í dag. Það er ekki gott að þurfa að taka svona ákvörðun með sérstöku frumvarpi sem þarf að keyra í gegnum þingið á miklum hraða í algerri tímapressu. Ég held að það séu allir sammála um það og ég trúi að hæstv. ráðherra sé með okkur í liði með að taka undir að það er auðvitað ekki ásættanlegt að við séum í slíkri stöðu.
Við í mínum flokki, og þetta viljum við fá að ræða hér samhliða, höfum verið að tala fyrir því að þetta flækjustig, þ.e. þetta tiltekna álitaefni, sé hægt að leysa með öðrum hætti. Auðvitað myndi það kalla á einhver önnur álitaefni því það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, að hin fullkomna leið er auðvitað ekki til. En að okkar mati væri það miklu skýrari, skilvirkari og gegnsærri leið, þegar við úthlutum veiðiheimildum, að það sé gert á markaði og til tiltekins tíma í senn. Þannig er gagnsæið tryggt. Þannig er fyrirsjáanleikinn tryggður til 20–30 ára. Það getur verið útfærsluatriði hversu langur tími ætti að vera á slíkum nýtingarsamningum en það myndi a.m.k. koma í veg fyrir að einhverjar sérstakar ráðstafanir vegna Covid endi allt í einu tveimur árum síðar í því að við séum að ræða það að óvænt sá það enginn fyrir að veiðigjöld myndu lækka.
Stundum er því hreyft að í sjálfu sér skipti kannski ekki öllu máli hversu hátt veiðigjaldið sé svo fremi sem greinin sjálf sé að borga vænar skatttekjur til ríkisins. Þetta heyrðist t.d. hjá formanni Framsóknarflokksins hér á dögunum þegar ég var að inna hann, hæstv. ráðherra, eftir því í óundirbúnum fyrirspurnatíma hvort til stæði að hækka veiðigjöldin eins og varaformaður flokksins hafði talað um. Hæstv. ráðherra svaraði því efnislega þannig til að það stæði ekki endilega til að hækka veiðigjöldin heldur væri miklu frekar vert að líta til þess að skoða einhvers konar skattlagningu með öðrum hætti til þess að mæta því.
Þessi hugsun finnst mér alger skekkja, þótt ég virði vissulega við menn að þeir sjái að það er ekki sanngjarnt gjald sem sjávarútvegurinn greiðir fyrir afnot af auðlindinni, vegna þess að mér finnst að þetta þurfi að vera skýrt. Skattalegur hluti atvinnugreina, sjávarútvegsins í þessu tilfelli, er eitt, en rétturinn til að nýta sameiginlega auðlind okkar Íslendinga er annað. Það þarf að verðleggja sérstaklega og með gagnsæjum hætti. Atburðarásin hérna núna sýnir okkur að við erum engan veginn á þeim stað. Þetta er nú eitt af því sem kannski snýr að þessu og má auðvitað nefna í því samhengi að það er okkar skoðun, eins og við höfum margrakið, bæði hér úr þessum ræðustól og almennt í umræðu í samfélaginu um þessi mál, að þessi leið sem við erum að tala fyrir myndi losa takið á öllum þessum hugsunarhætti. Ef mönnum finnst gjaldið vera lágt sem greitt er til þjóðarinnar þá mætti mæta því með öðrum hætti, í einhvers konar skattlagningu eða einhverju slíku. Þá erum við einmitt með allar þessar pólitísku ákvarðanir sem eru alltumlykjandi því það er auðvitað pólitísk ákvörðun hvernig þetta gjald er útfært og hvernig það er fundið út. Það er einmitt það sem við viljum forðast með því að fara þá leið sem við höfum verið að leggja til í mínum flokki og vert er að halda til haga hér í þessari umræðu vegna þess að þá erum við auðvitað með mjög fyrirsjáanlega atburðarás og fyrirtækin greiða þá bara það sem þau telja að þau geti ráðið við og gjaldið er þá ákveðið á markaði og það er erfitt að þræta fyrir þann dóm. Einhver árin gæti svo gjaldið verið lægra en önnur ár og við erum auðvitað að tala um lítinn hluta af heildaraflaheimildum á hverju ári í þessu eins og menn þekkja örugglega.
Ég velti líka fyrir mér hér — ég spurði reyndar hæstv. ráðherra um þetta hér í andsvari áðan — hvernig einstök fyrirtæki munu meta stöðu sína í framhaldi af þeirri lagasetningu sem við erum í núna. Það var auðvitað haft samráð við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi en það er auðvitað eitt. En annað er síðan það þegar fyrirtækin fara hvert í sínu horni að hugsa um sína hagsmuni. Ég held það gæti orðið svolítið áhugavert að fylgjast með hvort einhver fyrirtæki muni mögulega láta reyna á sína réttarstöðu í þessu. Það fyndist mér sjálfum alveg ótækt því að það var að sjálfsögðu ekki ætlunin að þetta færi með þessum hætti þegar ráðstafanir voru gerðar á sínum tíma. En það er engu að síður staðan sem við erum í í dag.
Það hefur líka verið nefnt í umræðunni í þessu máli í dag og bent á að sjávarútvegur var ein þeirra atvinnugreina sem jók útflutningstekjur sínar í veirufaraldrinum og það leiðir auðvitað hugann að þeim aðgerðum sem gripið var til á sínum tíma. Auðvitað er það þannig með allar atvinnugreinar að það þarf að horfa til aðstæðna á hverjum tíma og það getur komið til þess, þótt við hljótum alltaf að reyna að forðast það í lengstu lög, að grípa þurfi til einhverra sérstakra ívilnana til að hjálpa til í rekstri tímabundið eða annað. En svona hliðarverkanir af því eru auðvitað algerlega ótækar og ég ætla að árétta það sem ég sagði hér í byrjun. Hugsum þetta aðeins út frá því að það hefði verið lagt fyrir okkur á sínum tíma að ein af hliðarráðstöfunum þeirra viðbragða sem var verið að grípa til yrði lækkun á veiðigjöldum um einhverja milljarða. Fyrir það fyrsta þá hef ég efasemdir um að sú leið hefði verið lögð til. Þótt manni finnist nú varðstaða ákveðinna afla hér á Alþingi gagnvart öllu sem snýr að sjávarútveginum oft vera ansi mikil, þá held ég að menn hefðu nú ekki boðið upp í þann dans. Þess utan hefði held ég aldrei verið friður í samfélaginu um slíka ráðstöfun því eins og ég hef verið að nefna, að ef menn ætla að ívilna einhverri sérstakri atvinnugrein er það auðvitað sérstök umræða og í tilfelli sjávarútvegsins ætti það að vera með öllum öðrum leiðum en að kroppa í veiðigjaldið. Það held ég að sé eitthvað sem ætti að vera algjört leiðarstef hjá okkur í þessu öllu.
Ég má aðeins til með að nefna það sem kom fram í máli hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson hér fyrr í dag. Hún var að halda því til haga að þegar verið var að ræða þetta í þinginu og í þingnefnd á sínum tíma að þá gerði okkar þingmaður, Jón Steindór Valdimarsson, fyrirvara við það að listinn yfir þau fyrirtæki sem mundu nýta sér úrræðið væri ekki birtur. Og það er alveg full ástæða til að árétta að það er auðvitað eitthvað sem á að vera algjört grundvallaratriði þegar verið er að grípa til einhverra svona ráðstafana sem er í raun og veru ekkert annað en tilfærsla á fé frá ríkissjóði, almenningi, yfir í einhverjar tilteknar atvinnugreinar og núna er ég að tala almennt. Þá finnst manni að það þurfi að vera mjög ströng sjónarmið á bak við það. Það á ekki að grípa til þess að leyna almenning hverjir það eru sem nýta sér úrræðin nema einhver mjög sérstök tilvik eða aðstæður leiði til þess og ég fæ ekki séð að það hafi endilega verið reyndin í þessu máli.
Svo langar mig líka að nefna að við höfum auðvitað verið að sjá það í framhaldi af nýlegri rannsókn að stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja og eigendur sjávarútvegsfyrirtækja eru mjög meðvitaðir um það hversu erfitt er fyrir samfélagið allt að það séu alltaf endalausar illdeilur í kringum þennan sjávarútveg. Auðvitað er þetta þannig að þetta er atvinnugrein sem hefur skapað okkur alveg gríðarlega mikil verðmæti í gegnum áratugina og aldirnar og auðvitað er það þannig að þessi atvinnugrein — það hefur orðið til ótrúlega mikil nýsköpun og þekking; algerlega á heimsmælikvarða innan greinarinnar. Það er algjörlega grátlegt að birtingarmynd allrar umræðu um sjávarútveginn úti í samfélaginu séu einmitt átök um einhver tiltekin atriði sem leiða til þeirrar tilfinningar hjá þjóðinni, mikils meiri hluta þjóðarinnar, sem hefur ítrekað komið fram í könnunum, að það sé vitlaust gefið þegar menn fá úthlutað réttinum til þess að veiða fiskinn í sjónum sem er sameiginleg auðlind okkar allra. Við verðum að komast út úr þessu og það er alveg rétt sem þessir útgerðarmenn hafa verið að segja í blaðaviðtölum í framhaldi af þessari rannsókn, það er örugglega erfitt að sitja undir þessu, en ég verð hins vegar að gera athugasemd við það að sökudólgarnir séu þeir sem séu að benda á meinsemdir kerfisins. Það er bara þannig að sjávarútvegurinn á Íslandi, og það á auðvitað við um aðrar atvinnugreinar líka, getur ekki starfað í ósætti við þjóðina. Það er algerlega ómögulegt. Það hefur verið þannig í áratugi og við getum ekki haldið áfram lengur á þeirri braut.
Ég átta mig líka á því að hæstv. ráðherra er með mikla vinnu í gangi, fjölmennar nefndir sem eiga að setjast yfir ýmis af þessum álitaefnum. Það hefur þetta allt saman verið reynt áður en með tiltölulega litlum árangri. Ég ætla svo sem ekkert að gefa mér neina niðurstöðu fyrir fram í því, vona auðvitað að mönnum takist vel upp í þeirri vinnu. Það er algerlega ljóst að þeir fjármunir og verðmætasköpun sem verður til í sjávarútvegi kallar á það að greinin borgi meira í gegnum nýtingu sína á auðlindinni. Ég held að það hljóti að vera leiðarstefið í þeirri vinnu sem fram undan er.
Ég árétta þá bara hérna rétt í restina að það er ótrúlega miður að við séum í þeirri stöðu að þurfa að bregðast við með þessum hætti hér í þinginu. Við erum hins vegar ekki í ræðustól komin í mínum flokki til að leggja stein í götu þessa máls, engan veginn, en það er nauðsynlegt að draga fram þetta sem við höfum verið að draga fram með aðdragandann og svo líka hvers konar fyrirkomulag við erum með gagnvart greininni þegar kemur að veiðigjöldum almennt.