153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

úrræði fyrir heimilislaust fólk.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þetta er flókinn og samþættur vandi, þetta tiltekna mál, þar sem fólk þarf að leita skjóls. Ég vil fyrst draga það fram, varðandi skaðaminnkandi úrræði, að það hefur verið útbúið neyslurými, sérútbúið neyslurými. Bíllinn Ylja var tekinn í notkun í mars 2022 og ég held að það sé mjög mikilvægt úrræði. Ég held að við þurfum til framtíðar að horfa til þess úrræðis, að það sé staðbundið. En þetta er staður þar sem notendur 18 ára og eldri geta sprautað ávana- og vímuefnum í æð undir eftirliti sérhæfðs starfsfólks og þar er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingarvarna gætt. Neyslurými af þessum toga eru starfrækt víða um heim og ég held að þetta sé mjög mikilvægt úrræði.

Við höfum nýverið tekið höndum saman við Reykjavíkurborg um að styðja enn betur við heimilislaust fólk sem þarf heilbrigðisþjónustu. Á dögunum settum við 30 milljónir sérstaklega í það verkefni, til að styðja við þetta fólk. Við verðum svo að taka sérstaklega fyrir það sem hv. þingmaður kemur inn á hér, að það sé skjól fyrir þetta fólk allan sólarhringinn.