153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Talið er að ein af hverjum þremur konum verði fyrir ofbeldi einhvern tíma á lífsleiðinni. Tæplega 1.800 tilkynningar bárust lögreglunni á landsvísu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra eða tengdra aðila á fyrstu níu mánuðum ársins. Jafngildir það að meðaltali tæplega sjö tilkynningum á dag og hafa þær aldrei verið fleiri ef litið er til sama tímabils síðustu sjö ár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um heimilisofbeldi en um er að ræða tæplega 12% aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan. Flest tilvik heimilisofbeldis voru af hálfu maka eða fyrrverandi maka, eða í 64% mála. Í 78% tilvika var árásaraðili karl og í 67% tilvika var brotaþoli kona. Þegar um var að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrverandi maka voru 80% árásaraðila karlar og 78% brotaþola konur. Þá hefur málum er varða ofbeldi foreldris í garð barns einnig fjölgað í að meðaltali 11 mál á mánuði í ár. Einnig er vert að hafa í huga að um 37% manndrápsmála á tímabilinu 1999–2020 eru heimilisofbeldismál. Þetta eru sláandi tölur sem sýna að sú aukning á heimilisofbeldi sem átti sér stað í heimsfaraldrinum hefur haldið áfram. Annað dæmi þess er að um miðjan september höfðu fleiri konur gist í Kvennaathvarfinu en allt árið á undan.

Virðulegi forseti. Þessar tölur eru skýrt merki um nauðsyn þess að þing og ríkisstjórn ráðist í stórfellt og vel fjármagnað átak gegn heimilisofbeldi. (Forseti hringir.) Við getum ekki setið hjá frammi fyrir þessum faraldri. Grípum til aðgerða strax.