153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki er ég nú dómsmálaráðherra en ég ætla að koma upp bara til að staðfesta að þetta voru orð hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur. Þetta er auðvitað ein birtingarmynd slóðaskapar Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu og Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu og það er mjög miður að hæstv. ráðherra skuli enda þessa góðu umræðu með slíkum dylgjum af því að það er rangt sem hann hafði þarna eftir hv. þingmanni. Afleiðingar þess að dómþolar fái vægari refsingu vegna langs málsmeðferðartíma í kerfum landsins, sem eru fjársvelt, eru líka þær að það eru skilaboð til brotaþola að horfa upp á slíkt þegar það er ekkert gert til að koma til móts við það tjón sem brotaþolar hafa orðið fyrir vegna langs málsmeðferðartíma. Ég hef lagt það til að gefin verði út heimild til þess að bætur til brotaþola verði hækkaðar vegna þess að þeirra bati getur ekki hafist (Forseti hringir.) að ráði fyrr en að dómur fellur og að ríkissjóður verði látinn borga fyrir það tjón, ekki þeir sem eru dæmdir fyrir brotið (Forseti hringir.) heldur ríkissjóður fyrir slóðaskapinn. Ég held að við ættum að taka það upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)