153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[15:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Af því að við erum að tala um stríð, þó að við séum hér í fundarstjórn forseta, þá verð ég að koma upp og nefna að þetta stríð mun ekki vinnast með vopnaburði. Stríð vinnast ekki á þann hátt. Stríð vinnast með því að ná samkomulagi um mildi og mannúð og um að taka á vanda fólks með ýmiss konar veikindi í farteskinu. Það er oft gott að setjast niður og spjalla í stríði, en að ráðherra málaflokksins boði stríð er alvarlegur hlutur og sendir bara ein skilaboð inn í vopnabúr þeirra sem vilja stríð, þ.e. áframhaldandi stríð og áframhaldandi vopnaburður, í staðinn fyrir að leggja alla áherslu á betrun fanga og að kerfið virki þannig að þeir fái skýr skilaboð um að svona hegðun sé ekki í boði. (Forseti hringir.) Eftir dóm eru kannski tvö ár þar til afplánun hefst en fyrir dóm er málsmeðferðin kannski þrjú ár. (Forseti hringir.) Þetta kerfi þarf að virka, hæstv. ráðherra, til að við getum talað um að við búum í góðu samfélagi.