153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (AIJ): Forseti biður um hljóð í salinn.)

meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022. Ef ég rek í stuttu máli helstu útgjaldatilefni frumvarpsins þá tengjast þau fyrst og fremst, eins og er rakið í nefndaráliti, afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru og breyttum efnahagshorfum sem einkennast af hærri verðbólgu og áhrifum af stríði í Úkraínu. Á fyrri hluta ársins var heilbrigðiskerfið enn að glíma við viðbótarkostnað af faraldrinum. Tillögurnar endurspegla þessa stöðu en í nokkrum tilvikum hefur almennur varasjóður fjárlaga einnig verið nýttur til að mæta útgjöldum. Samtals er lagt til að fjárheimildir verði auknar um 74,7 milljarða kr. sem er 6,1% af heimildum fjárlaga ársins. Ef miðað er við rammasett útgjöld nema heimildir 35,9 milljörðum kr. eða 3,5% af fjárlögum. Er það lægra hlutfall en oft hefur verið áður. Mismunurinn liggur í langveigamestu tillögunni sem er 37 milljarðar kr. hækkun fjármagnskostnaðar. Fyrir þessu öllu var gerð grein fyrir í framsögu hæstv. fjármálaráðherra fyrir fjáraukalagafrumvarpinu.

Fjárlaganefnd ræddi talsvert nýtingu á almennum varasjóði í tengslum við frágang og umfjöllun um fjáraukalagafrumvarpið. Í vinnu sinni við frumvarpið ræddi nefndin um hlutverk og verklag í tengslum við varasjóði fjárlaga, bæði varasjóði einstakra málefnasviða og flokka og sérstaklega nýtingu á almennum varasjóði fjárlaga. Í 24. gr. laga um opinber fjármál er tiltekið að gera skuli ráð fyrir óskiptum almennum varasjóði til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki unnt að bregðast við með öðrum hætti. Varasjóður skal nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga. Honum er almennt ætlað að mæta frávikum frá launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlaga. Tilgangurinn er að draga eins og kostur er úr notkun fjáraukalaga. Þetta eru sömu skilyrði og þau tilefni sem falla undir 26. gr. laganna um frumvarp til fjáraukalaga. Í fjárlögum ársins nam heimild almenna varasjóðsins samtals 16,5 milljörðum kr. Nú þegar hefur verið ákveðið að nýta hann sem nemur tilefnum sem fram koma í töflu sem birt er í nefndaráliti. Enn er óráðstafað fjárhæð sem nemur 2,7 milljörðum kr.

Ríkisendurskoðun bendir á að varasjóðir einstakra málaflokka hafi aukist með því að afgangur fyrri ára færist til yfirstandandi árs. Þannig eru rúmir 3 milljarðar kr. til ráðstöfunar í ár og sáralítið hefur verið millifært á einstaka liði.

Í kjölfarið á þessari umræðu í nefndinni um notkun varasjóða koma hér fram ábendingar meiri hluta fjárlaganefndar í þessum efnum. Í fyrsta lagi hefur ekki enn verið gefin út reglugerð um ráðstöfun fjár úr varasjóðum. Lagt er til að ráðherra gefi hana út sem allra fyrst. Í öðru lagi er fjárheimildum varasjóða málaflokka oft og tíðum ekki ráðstafað fyrr en undir lok ársins. Miklu betur færi á því að varasjóðum væri ráðstafað í byrjun árs ef veikleiki í rekstraráætlun gefur tilefni til eða í það minnsta að á þeim tíma sem veikleiki er að koma í ljós í viðkomandi málaflokki sé með markvissum hætti gripið til úrræða eins og varasjóðs auk annarra þeirra tækja sem duga til að halda viðkomandi málaflokki innan fjárheimilda. Í þriðja lagi bendum við á útgjaldatilefni vegna lyfja og lækningavara falla ekki sérstaklega vel að skilyrði laganna um að vera tímabundin og ófyrirsjáanleg. Endurmat á útgjöldum ársins er samtals að fjárhæð 3,4 milljarðar kr. og sýnir að ekki hefur verið brugðist nægjanlega við hækkun í ákveðnum lyfjaflokkum. Brýnt er að heilbrigðisráðuneyti leggi fram trúverðugar áætlanir á þessu málefnasviði og grípi tímanlega til aðgerða ef útgjöld stefna í að verða umfram heimildir. Að lokum bendir meiri hluti fjárlaganefndar á að í frumvarpinu er gerð tillaga um 6 milljarða kr. framlag til kaupa og aðlögunar á hluta af nýja Landsbankahúsinu við Austurbakka fyrir utanríkisráðuneyti og einnig fyrir aðra nýtingu. Þar er byggt á almennri heimild í 6. gr. fjárlaga til að leigja eða kaupa húsnæði fyrir aðalskrifstofur ráðuneyta. Fullt tilefni virðist vera til að endurskoða húsnæðismál Stjórnarráðsins í heild sinni í kjölfarið á þessum kaupum. Bent er á að margvíslegar áherslur í húsnæðismálum má taka til endurskoðunar, m.a. í ljósi stafrænnar þróunar undanfarinna ára. Ég rek það ekki nánar, virðulegur forseti, en það er alveg umræðu virði að við endurmetum húsnæðismál hins opinbera í kjölfar stafrænnar þróunar og þess tíma sem við höfum nýlega gengið í gegnum, þar sem við á stuttum tíma færðum starfsemi fyrirtækja og stofnana meira og minna heim til fólks, og hvernig það getur síðan endurspeglast í húsnæðisþörf hins opinbera og að við mætum henni með nýrri hugsun og nýjum stjórnarháttum og vinnum raunverulega með slíkar breytingar.

Í nefndaráliti er fjallað um endurmat á afkomu ársins 2022 og ég rek það ekki nánar, virðulegur forseti, það liggur fyrir í þessu nefndaráliti. Hér birtast síðan fimm breytingartillögur við framlagt frumvarp og samtals nema þessar fimm tillögur fjárhæð að 15,1 milljarði kr.

Fjárlaganefnd í heild sinni sameinast um eina breytingartillögu sem er í málaflokknum 27.40, um aðrar örorkugreiðslur. Gerð er tillaga um 780 millj. kr. einskiptisframlag til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 650 millj. kr. greiðslu af þessum toga. Var þá miðað við að um væri að ræða 27.772 kr. til einstaklings sem hefur verið með réttindi allt árið. Með þessari breytingu fjárlaganefndar hækkar eingreiðslan um 13% frá því í fyrra og verður 60.300 kr. á einstakling. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Gert er ráð fyrir að lögð verði til breyting á lögum um almannatryggingar til að tryggja að þessi viðbótargreiðsla verði skattfrjáls og hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning. Markmiðið er að aðrar greiðslur haldist óskertar þrátt fyrir þessa viðbót.

Þá mun ég gera grein fyrir fjórum tillögum meiri hluta fjárlaganefndar við fyrirliggjandi fjáraukalagafrumvarp. Í fyrsta lagi er það liður 09.50, um fullnustumál. Þar gerir meiri hlutinn tillögu um 150 millj. kr. einskiptisframlag sem ætlað er að koma til móts við uppsafnaðan fjárhagsvanda Fangelsismálastofnunar. Stofnunin hefur verið rekin innan fjárheimilda undanfarin ár en fjárhagslegar áskoranir á yfirstandandi ári, til að mynda vegna styttingar vinnuvikunnar og stórfjölgunar gæsluvarðhaldsfanga, hafa leitt til rekstrarhalla. Þrátt fyrir aðhald í starfsmannahaldi og nánast engar viðhaldsframkvæmdir um langt skeið hefur reynst nauðsynlegt að hætta við að reka öll fangelsi á fullum afköstum. Nú eru um 20–25% fangelsisplássa ekki nýtt vegna fjárskorts. Markmið með tillögunni er að koma í veg fyrir lokun plássa og ná jafnvægi í rekstri í árslok. Meiri hlutinn hyggst fylgja þessu verkefni eftir fyrir 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023. Jafnframt er áréttað að ráðuneytinu ber framvegis að forgangsraða útgjaldasvigrúmi með þeim hætti að sú staða sem við fjöllum hér um í fullnustumálum komi ekki upp að nýju.

Virðulegi forseti. Ég held að tillagan endurspegli í það minnsta það ákall sem barst vegna málefna Fangelsismálastofnunar og hefur verið í fjölmiðlum á undanförnum dögum en ekki bara vegna þess að það ákall kom heldur ekki síður vegna þess að í mjög langan tíma hefur verið gríðarlegt aðhald í rekstri Fangelsismálastofnunar. Stofnunin hefur haldið sig vel innan sinna heimilda í mjög langan tíma og rétt að geta þess að í breytingartillögum ríkisstjórnar til 2. umr. fjárlagafrumvarps fyrir árið 2023, sem reyndar hefur verið gerð grein fyrir opinberlega, hefur það verið reifað að bæta fjármunum til reksturs og auka þar með rekstrarþol Fangelsismálastofnunar. Líta ber á þessa sérstöku fjárveitingu, sem er ekki síst til komin vegna fjölda gæsluvarðhaldsmála, sem einbeittan vilja okkar til að ná aftur tökum á rekstri þessa málaflokks.

Þá gerum við tillögu um liðinn 18.40, um íþrótta- og æskulýðsmál. Gerð er tillaga um 100 millj. kr. framlag til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðshreyfinguna vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónuveiru. Í frumvarpinu er nú þegar að finna 350 millj. kr. tillögu af þessu tilefni og samtals er því gerð tillaga um 450 millj. kr. til verkefnisins.

Við gerum tillögu á fjárlagalið 22.20, sem er framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig. Um er að ræða tillögu upp á 77,3 millj. kr. vegna móttöku barna á flótta frá Úkraínu. Í frumvarpinu er nú þegar gert ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi vegna kostnaðar mennta- og barnamálaráðuneytis við móttökuna sem einkum er varið til íslenskukennslu. Nú hafa borist upplýsingar um að heildarkostnaður verkefnisins verði 107,3 millj. kr. og er því mætt með þessari tillögu.

Að lokum er hér tillaga til breytingar á fyrirliggjandi fjáraukalagafrumvarpi er varðar fjárlagalið 33.30, um lífeyrisskuldbindingar og það er, virðulegur forseti, í sjálfu sér langstærsta breytingin á frumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir 14 milljarða kr. fjárheimild til fjármála- og efnahagsráðherra til að mæta auknum skuldbindingum vegna lífeyrisaukasjóðs A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það mætti, virðulegi forseti, í sjálfu sér að halda langa ræðu um tilurð þessarar skuldbindingar en í sem stystu máli má segja að, eins og segir í nefndarálitinu, tillagan byggist á endurmati á skuldbindingum ríkisins vegna lagabreytinga um LSR sem komu til í kjölfar samkomulags við heildarsamtök opinberra starfsmanna árið 2016. Aðalbreytingin fólst í því að réttindaávinnsla sjóðfélaga í A-deild LSR var breytt úr jafnri ávinnslu í aldurstengda ávinnslu eins og almennt gildir í öðrum lífeyrissjóðum. Stofnaður var lífeyrisaukasjóður til að bæta mismun ávinnslu fyrir þá sem voru sjóðfélagar fyrir breytinguna. Nú hefur komið í ljós vanmat á þeim fjölda sem á rétt á framlögum úr lífeyrisaukasjóðnum og voru sjóðfélagar áður en samkomulagið var gert og koma síðan aftur til starfa eftir lagabreytinguna. Áætlað er að það séu rúmlega 2.000 manns. Að mati tryggingastærðfræðings LSR er viðbótarkostnaður lífeyrisaukasjóðs á bilinu 10–14 milljarðar kr. en endanlegir útreikningar liggja ekki fyrir. Það frávik sem orðið hefur frá forsendum samkomulagsins, vegna endurkomu þeirra lífeyrisþega sem áttu geymd réttindi í honum og fengu virka aðild að honum að nýju, var ófyrirséð þegar samkomulagið var undirritað. Þessar breyttu forsendur hafa komið skýrar í ljós við gagnaöflun og útreikninga tryggingastærðfræðinga og hafa í för með sér að fyrir liggur skuldbinding af hálfu ríkisins til að standa við niðurstöðu samkomulags við heildarsamtök opinberra starfsmanna.

Meiri hlutinn ítrekar að hér er lögð til hámarksgjaldaheimild sem eingöngu tengist upphaflegu vanmati á forsendum samkomulagsins frá 2016, en tengist ekkert áhættuþáttum hefðbundins tryggingafræðilegs mats á skuldbindingum LSR til framtíðar, svo sem breyttum lífslíkum, ávöxtun sjóðsins og þar fram eftir götunum. Ekki hefur farið fram fullnaðargreining á því hvert endanlegt framlag verður og eru enn óvissuþættir. Meiri hlutinn bendir á að án heimildarinnar er líklegt að framtíðarskuldbindingar lífeyrisaukasjóðsins verði neikvæðar fimmta árið í röð og kallar það á viðbrögð af hálfu stjórnar LSR. Jafnframt er lagt til að þegar endanleg fjárhæð liggi fyrir geri ráðuneytið grein fyrir forsendum útreikninga og viðræðum við félög opinberra starfsmanna á fundi fjárlaganefndar

Virðulegur forseti. Ég fer svo sem ekkert í langa ræðu um tilefni þessarar breytingartillögu að öðru leyti en því að segja að við komumst að því í fjárlaganefnd í yfirferð nefndarinnar um þessa tillögu að í sjálfu sér hefur ekki náðst að greina umfang málsins að fullu. Þessi fjöldi starfsmanna, rúmlega 2.000, kemur okkur á óvart og við höfum ekki heldur fengið neina greiningu á því hvort þar var um að ræða starfsmenn í fullu starfi sem komu til ríkisins aftur og áttu geymd réttindi. Ég verð að taka það fram, virðulegur forseti, við framsögu á þessu nefndaráliti hér að við gerum sannarlega tillögu um 14 milljarða gjaldaheimild en tökum það aftur á móti fram mjög skýrt að það sé mikið óunnið í þessum efnum og þegar niðurstaða greiningarvinnunnar liggur fyrir þá verði þinginu, fjárlaganefnd, gerð grein fyrir þeirri fjárhæð sem mun koma til greiðslu til að standa við þetta samkomulag frá LSR. Það má í sjálfu sér hafa líka alls konar skoðanir á því hvernig þetta kom til, hvers vegna þessi gluggi var búinn til þarna haustið 2016 sem rímaði aftur við breytingar á B-deild LSR 1996 þar sem gefið var þetta svigrúm, sem er greinilega breytan sem er hér að kosta okkur mikið verkefni og talsverða peninga til þess að komast í gegnum. Með þessum hætti er málið til komið. Í frumvarpi til fjáraukalaga var tæpt á þessu í greinargerð en það var kannski ekki texti sem gaf til skýrt til kynna að verkefnið væri jafn stórt og síðan hefur komið í ljós. Þegar allt er saman talið þá gerir meiri hlutinn tillögu um gjaldaheimild sem nemur allt að 14 milljörðum kr. í þessum efnum.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, áheyrnarfulltrúi, lýsir sig samþykka breytingartillögu frá nefndinni allri um einskiptisframlag til örorku- og ellilífeyrisþega.

Undir þetta nefndarálit skrifa Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Stefán Vagn Stefánsson, Bryndís Haraldsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.