153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna, kynninguna á fjáraukanum. Gleðilegu jólin eru þau að hluti af breytingartillögu minni, sem ég mælti fyrir aftur í nóvember sl., um að hækka fyrirhugaða eingreiðslu til öryrkja í desember úr 27.700 kr. í 60.000 kr., er nú að verða að veruleika. Því miður var hinum helmingnum af tillögunni minni sópað út af borðinu. Það eru sem sagt 360 milljónir sem þarf að bæta í til að tekjulægstu ellilífeyrisþegarnir geti fengið sambærilegar greiðslur fyrir jólin og öryrkjarnir. Þetta eru þeir einstaklingar sem hafa ekkert úr öðru að spila en berstrípuðum greiðslum frá Tryggingastofnun. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Kemur ekki til greina, ef heimild verður til, að nýta umframfjármuni í varasjóði til að mæta þessu fátækasta fullorðna fólkinu í landinu fyrir jólin?