153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Spurningin var með beinum hætti hvort það kæmi til greina að nýta varasjóð til þessara hluta. Ég held að það muni ekki falla að skilyrðum varasjóðs að gera það með þeim hætti. Um aðra þætti er hv. þingmaður nefnir í sínu andsvari vil ég aðeins segja: Sú fjárhæð sem nefndin öll leggur til að verði greidd út rímar miklu frekar við þá upphæð sem var samþykkt í afgreiðslu fjáraukalaga fyrir um ári síðan og náðist þá líka ágætis samstaða um.

Í öðru lagi vil ég nefna að við erum með í fjárlögum næsta árs líka aðgerðir til að mæta þessum hóp þannig að við erum ekki síður að horfa bara til þeirrar kröfugerðar sem Öryrkjabandalagið hefur lagt fyrir þingið og reyna líka að sýna fram á að við höfum fullan vilja til að taka vel utan um þennan málaflokk. En með beinum hætti hvort það eigi að bæta hér við 360 millj. kr., eins og þingmaður spurði um, þá sannarlega tókum við umræðu um það. Við þurfum að vísa því til félagsmálaráðherra hvernig við greinum þennan hóp og hvernig við náum utan um hann áður en við flytjum frekari tillögur í þeim efnum.