153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg ástæða til að við rifjum upp þessa sögu sem hv. þingmaður fer með hér og ég get einfaldlega staðfest að svona er þetta til komið. Um fjárhæðirnar sem er afgangs núna get ég ekki fullyrt af því að við rannsökuðum það ekkert sérstaklega. En ég vil hins vegar benda aftur á að í fram komnum tillögum sem hafa verið lagðar til fjárlaganefndar, og reyndar birtar opinberlega svo maður leyfi sér að vitna í það, er 1,1 milljarður til þess að hækka frítekjumörk öryrkja eða fólks með skerta starfsgetu á almennum vinnumarkaði. Hin formlega söguskýring hv. þingmanns er að því leyti alveg sú sama og ég hef. Hvort við höfum afgang af þessum 1,1 milljarði — þetta er í það minnsta tillaga sem við sameinumst um, ekki síst vegna þess að við viljum í viðræðum við Öryrkjabandalagið og við þessa hópa ná fram ákveðnum kerfisbreytingum til hagsbóta fyrir þá og reynum að taka utan um þeirra kjör. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og ég held að við sýnum sterkan vilja til þess með þessum tillöguflutningi í dag.