153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér í upphafi að vera ósammála hv. þingmanni um að við séum ekki að nýta okkur þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að fá heimildir í fjáraukalögum. Ég held ég megi fullyrða að af þeim fjáraukalögum sem við höfum séð á undanförnum árum séu þessi fjáraukalög með langminnsta frávikið frá gildandi fjárlögum út frá þeim mælikvörðum sem við höfum um óvænt og ófyrirséð tilefni og slíka þætti. Ég ætla hins vegar ekki að mótmæla því sem kemur fram hjá hv. þingmanni að lífeyrisaukamálið hér sé óvænt og ófyrirséð en þó með þeim hætti að skuldbinding er að koma í ljós við yfirferð á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Meiri hluta fjárlaganefndar fannst mikilvægt að bregðast við og gefa þessa gjaldaheimild. Ég tók skýrt fram í minni framsögu að við sæjum ekki alveg til lands í þeim greiningum sem þyrftu að vera hér undir til að ljúka því samkomulagi. Þess vegna erum við með gjaldaheimild. Það ber síðan að lýsa samkomulaginu fyrir fjárlaganefnd og við fáum upplýsingar um endanlega fjárhæð, sem þarf ekkert endilega að endurspegla gjaldaheimildina upp á 14 milljarða kr. og ég vona sannarlega að svo verði ekki.