153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:33]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu hér. Það sem vekur athygli mína eru kannski þeir póstar sem eru hvað stærstir í þessari 74 milljarða kr. breytingu. Það eru annars vegar vaxtagreiðslur og síðan auðvitað þetta lífeyrissjóðsmál sem er æði sérstakt en var að mínu mati fyrirséð, ekki ófyrirséð eins og hér er verið að tala um. Það er samið um þetta í samningunum 2016 og það virðist vera þannig að það séu að dúkka upp alls konar skuldbindingar. Þar nægir bara að nefna ÍL-sjóðinn þar sem við erum að tala um skuldbindingar upp á ekki bara tugi milljarða heldur hundruð milljarða. Þarna er verið að horfa til þess að það þurfi að bæta inn 14 milljörðum en þetta er bara vegna samninga sem gerðir voru árið 2016. Hvernig stendur á því að það er ekki verið að skoða þetta frá ári til árs heldur er verið að senda ríkissjóði tugmilljarða reikning?