153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla í upphafi bara að biðjast undan því að blanda umræðu um ÍL-sjóð saman við það verkefni sem við erum hér með, þennan lífeyrisauka. Það er algjörlega ómálefnalegt að blanda því saman. Hins vegar vil ég segja að það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að áhrifamat eða kostnaðarútreikningur á því að gefa þennan glugga, þessi réttindi fyrir fólk til að koma til baka, hann var ekki að fullu verðmetinn til að birta í því frumvarpi sem lá hér á borðum þingmanna 2016. Ég var reyndar á þingi á þeim tíma og man eftir því að menn vöruðu sumir hverjir við þessu ákvæði en það var ákveðið að það skyldi verða og það á að vera að fullnusta það núna. Í mínum huga þá er það að segja að þegar við greiddum þarna 107 milljarða inn í lífeyrissjóðinn og lögðum síðan 8,4 milljarða í sérstakan varúðarsjóð þá átti enginn von á því að þessi gluggi yrði þetta mikið notaður og myndi mynda slíkar skuldbindingar. Við yfirferð á sjóðnum núna, eins og ég rakti áðan, er þessi skuldbinding að koma í ljós og ég held að það sé ábyrgt að taka á henni á þessu stigi málsins.