153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni þetta andsvar. Ég held að ég hafi gert rækilega grein fyrir því í minni framsögu að þarna er um ívilnun að ræða sem ekki var gerð nægilega grein fyrir hvað myndi kosta. Þegar þetta frumvarp kemur til þingsins haustið 2016 og síðan lagt fram af öðrum fjármálaráðherra sem tók við seinna það haust þá er í því frumvarpi sem kynnt var fyrst opnaður þessi gluggi sem ég held að við stöndum frammi fyrir og við verðum að viðurkenna, hv. þingmaður, að menn áttuðu sig ekki á því hvaða kostnað hann hefði í för með sér. Þannig er þetta mál vaxið og við getum ekkert bjargað því eftir á. Ég ítreka enn og aftur að við þekkjum áhrif lagasetningar og reynum að kostnaðarmeta þau til enda og við séum ekki að taka inn einhverjar breytingar sem eru ómetnar hverju sinni.