153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi að ég gæti snúið klukkunni til baka og undið ofan af þessu. Ég vil bara rifja upp að á þessu hausti voru nú ákaflega sérstakir tímar en það afsakar ekki þennan gjörning. Ég man hins vegar þá tíð og ég fletti því sérstaklega upp í tengslum við þetta hvaða þingræður voru fluttar hér á sínum tíma og hvaða sjónarmið komu fram og menn höfðu áhyggjur af þessum glugga. Ég held að þessi gluggi sem þarna er opnaður, með speglun til breytinganna frá 1996 á B-deild, hafi þótt sanngirnismál á sínum tíma og á þeim grunni hafi þingið verið jákvætt fyrir þessari breytingu. En það kemur náttúrlega óskaplega mikið á óvart hversu margir eiga rétt á að fara þarna inn, hversu margir eiga geymd réttindi. Hvers vegna eru þetta 2.000 manns? Ég get sagt það sem fjárlaganefndarmaður að við höfum ekki alveg séð til botns í því. Þetta þarf að rannsaka. Við skulum bara vera sammála um það, hv. þingmaður, að þetta voru mistök í þessu ljósi en ég held að þetta ákvæði hafi verið sett með fullkomlega sanngjörnum hætti með hliðsjón af breytingunni 1996.