153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna á nefndarálitinu. Það er svo langt síðan ég bað um andsvar að ég er næstum búinn að gleyma spurningunni. Ég vil bara að það komi fram vegna ræðu hv. þingmanns — mér fannst rétt og skylt að taka utan um það, því að hann var að setja í samhengi við umræðuna um lífeyrisaukann það sem væri óvænt og ófyrirséð — að það var mjög skýrt í svörum fulltrúa fjármálaráðuneytisins hvenær menn fóru að greina hver þessi skuldbinding væri. Einhvern tímann í lok ágúst, byrjun september, fóru menn að sjá glitta í hana og frá þeim tíma hefur þessi greiningarvinna staðið. Ég vísaði í það í framsögunni áðan að í texta með fjáraukalagafrumvarpi væri tæpt á þessu en við áttum kannski ekki von á svona stóru máli í þeim efnum. Mér fannst mikilvægt að þetta kæmi fram og vil halda því til haga að það var ekki þannig að menn hefðu bara geymt þetta einhvers staðar ofan í skúffu í langan tíma. Það er hins vegar ákvörðun meiri hluta fjárlaganefndar að taka málið upp. Hv. þingmaður segir að það sé útúrsnúningur að tala um gjaldaheimild, ég ætla ekki að dæma um það. En þetta verkefni hefur verið metið upp á 10–14 milljarða, einhvers staðar á því bilinu. Hv. þingmaður rakti mjög vel að ýmsum spurningum væri ósvarað í þessum efnum. Ég er alveg á þeim stað líka og reyndi að koma því til skila í framsöguræðu minni. Í þeim skilningi er þetta því ekki andsvar að öðru leyti en því að ég árétta hér ákveðna hluti sem ég vildi að kæmu fram í kjölfarið á ræðu hv. þingmanns.