153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er rosalega áhugavert málefni. Ég held að við séum dálítið föst í yfirborðskenndri umræðu um fjárlög sem býr þetta vandamál til. Stjórnmálamenn vilja hreykja sér af miklum afgangi, af vel reknum ríkissjóði og ýmsu svoleiðis. Þá eru fjárlögin einfaldlega stillt til á þann hátt — samkvæmt minni reynslu, það er mitt gildismat, ég fullyrði ekkert meira um það en að það er mín skoðun og ég get nefnt fjölmörg dæmi um það en ekki á þeim mínútum sem ég á eftir. Það sem vakti áhuga minn á þessum hagsveiflum með tilliti til fjármálaáætlunargerðar eru uppástungur sem komu frá formanni fjármálaráðs sem kom eitt sinn á fund fjárlaganefndar án hinna fjármálaráðsmeðlimanna og varpaði þeirri opnu spurningu til nefndarinnar hvort ekki væri ráð að fjármálaáætlun yrði reiknuð upp með tilliti til langtímahagvaxtar, í stað þess að vera alltaf að reyna að elta sveiflurnar. Það eru alltaf sveiflurnar, vanmat á uppsveiflum og niðursveiflum, sem einhvern veginn leiða af sér fullt af ónákvæmni í fjárlögunum sem þarf alltaf að handstýra í átt að því að árslokastaðan líti vel út. Mér finnst það rosalega yfirborðskennd pólitísk umræða sem við þurfum að gera betur í. Við eigum ekki að horfa svona stíft í það hvernig afkoman er heldur þurfum við að horfa á þetta út frá stærra samhengi. Ég held að við þurfum að gera betur í þessu.