153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[20:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Lög um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016. Markmið þeirra laga er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála ríkisins og fjármála sveitarfélaga. Ég held að það megi alveg segja að lögin hafi marktæk áhrif ef við tökum frá útgjöld vegna vaxtagjalda ríkissjóðs og hækkunar verðbóta vegna hærri verðbólgu en spáð var og breytingartillögu vegna lífeyrisskuldbindingar. Þá eru vísbendingarnar þær að nýtingin á varasjóði, sem er samsettur af einu prósenti af heildinni, sé að virka. Ekki er um háar tölur að ræða í sjálfu sér, þá er það í raun lægra hlutfall af heildinni en verið hefur undanfarin ár. Ef við horfum á stóru myndina, þ.e. stóru tölurnar, eru lögin að virka, ég held að það sé alveg óhætt að segja það, frú forseti.

Að sjálfsögðu voru þessi lög tímamótalög og markmið þeirra var að stuðla að þessari góðu hagstjórn og vinna á ákveðnum vanda sem hafði verið gegnumgangandi árin á undan þegar kom að hagstjórn ríkisins ef ég má orða það þannig. Hins vegar má alltaf gera betur og ég er þeirrar skoðunar að þegar kemur að áætlanagerð í heilbrigðismálum almennt þurfi stjórnarráðið að bæta sig. Lögunum um opinber fjármál er m.a. ætlað að tryggja vandaðan undirbúning áætlana og lagasetningar sem varðar efnahag opinberra aðila og öflun og meðferð opinbers fjár.

Mér sýnist að aukaútgjöld til heilbrigðismála, sem hér eru til umræðu, m.a. vegna Covid, séu um 14 milljarðar. Hér þarf að mínum dómi að bæta áætlanagerð. Það er sjálfsagt og eðlilegt að gera þá kröfu að fram fari verkefnamiðuð nálgun á áætlanagerðina og í raun bókhaldið einnig, að við fáum það skýrt fram hvað er hér vegna Covid eða veirufaraldursins og hvað eru afleidd útgjöld vegna hans. Er hugsanlegt að það hafi verið, og sé jafnvel enn, tilhneiging til þess hjá Landspítalanum t.d. að setja ýmis útgjöld á þennan veirufaraldursreikning sem ríkisstjórnin var búin að lofa að borga? Ríkisstjórnin var eiginlega búin að gefa það út að hún myndi borga öll útgjöld heilbrigðiskerfisins vegna veirufaraldursins. Það er að mínum dómi nauðsynlegt að gera betur grein fyrir þessum afleidda kostnaði og eftir að hafa setið í fjárlaganefnd í fjögur ár er ég þeirrar skoðunar að eftirfylgni áætlana sé því miður ábótavant. Einkum virðist það vera viðtekin venja að útgjöld vaxi umfram áætlanir og það er að sjálfsögðu óásættanlegt. Í ljósi reynslunnar er ekki nóg að setja fram metnaðarfull markmið um niðurskurð heldur þarf að tryggja að slíku markmiði sé framfylgt. Þá spyr maður sig: Hvað með ríkisstofnanirnar sem eru að eyða peningunum? Forstöðumenn ríkisstofnana bera ábyrgð þegar kemur að fjármálum. Forstöðumaður ber ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á því að starfsemin samræmist stefnu málaflokksins og að starfsemin sé innan fjárheimilda, skili tilteknum árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem hafa verið samþykktar. Þetta er að sjálfsögðu mikil ábyrgð og forstöðumaður ber ábyrgð á reikningsskilum og að bókhald sé fært á réttum tíma í samræmi við reglur Fjársýslu ríkisins þannig að fjárhagskerfi ríkisins gefi á hverjum tíma sem réttasta mynd af fjárhagsstöðu. Forstöðumaður, eftir atvikum stjórn ríkisaðila, skal ávallt stýra rekstri stofnana í samræmi við samþykkta ársáætlun. (Forseti hringir.)

(Forseti (JSkúl): Forseti biður hv. þingmenn um að leyfa ræðumanni að eiga orðið. )

Komi í ljós að útgjöld stefni umfram áætlanir skal forstöðumaður tafarlaust skýra hlutaðeigandi ráðuneyti frá því hverjar séu ástæður þess og hvaða aðgerðum verði beitt. Þetta er mjög skýrt. Tilkynning til ráðuneytis skal vera með formlegum hætti. Þá skal forstöðumaður greina frá ítarlegri greiningu vandans, tillögum að útfærslu lausna og tímaáætlun aðgerða. Síðan ber forstöðumanni skylda til að leita allra möguleika og úrræða til að bregðast við því fráviki sem orðið hefur á fjárveitingum. Þetta er m.a. það sem kemur fram í reglugerð sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett og er skýrt verklag til forstöðumanna ríkisstofnana um hvernig þeim beri að umgangast opinbert fé, fjárveitingar sem Alþingi hefur fært þessum stofnunum. Ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana er því skýr. Það er hins vegar annað mál hvernig þeir axla þessa ábyrgð, t.d. ef um framúrkeyrslu er að ræða eða að hún sé óeðlilega mikil. Mér finnst, frú forseti, lítið hafa farið fyrir þeirri umræðu.

Þau útgjöld sem eiga heima í fjáraukalögum verða lögum samkvæmt að vera tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Annars eiga þau ekki heima í fjáraukalögum. Þetta er einfalt og þetta er skýrt og þetta er í lögum. Ég hef t.d. ákveðnar efasemdir um að lyfjakostnaður og hjálpartæki séu óvænt útgjöld, a.m.k. fellur það ekki vel að skilyrðum laganna. Þessi liður hljóðar upp á 4,1 milljarð kr. og er einkum vegna endurmats á útgjöldum ársins eins og kemur fram í frumvarpinu. Endurmat á útgjöldum ársins hlýtur einfaldlega að þýða að hér sé um veikleika í áætlanagerð að ræða. Það er því miður oft þannig að ráðuneytin vanáætla liði sem þau fara síðan fram á að verði bætt í fjárauka. Mér finnst eins og þetta sé að endurtaka sig og sé orðið of algengt — ég vil kannski ekki segja að þetta sé orðið vinnulag — og á þessu þarf að taka að mínum dómi. Forstöðumenn ríkisstofnana geta ekki endalaust treyst á að hlutunum verði bara reddað í fjárauka.

Að sama skapi get ég ekki séð að kaup ríkisins á hlut í nýju Landsbankahúsi upp á 6 milljarða falli vel að skilyrðum laganna. Þessi liður er fjármagnaður með arðgreiðslu frá Landsbankanum en ég tel hins vegar að þessi áform, þessi kaup, séu skynsamleg. Ég hef reyndar talað fyrir því á fyrri stigum að þessi bygging væri yfir höfuð ekki skynsamleg en hún er risin og er að sjálfsögðu fjárfesting. Ég tel það vera skynsamleg áform að utanríkisráðuneytið flytji í þessa byggingu, það er þá komið á einn stað og því fylgir ákveðin hagræðing. En það er hægt að hagræða á fleiri sviðum þegar kemur að húsnæðismálum ríkisins og ég hefði jafnframt viljað sjá að forsætisráðuneytið myndi flytja í þetta hús. Í fjármálaáætlun fyrir 2023–2027 segir í kaflanum um forsætisráðuneytið á bls. 188 að helstu áskoranir er snúa að innri starfsemi og rekstri ráðuneytisins á næstunni varði húsnæðismál ráðuneytisins. Það sé rekið á fimm mismunandi stöðum og sé með leigusamninga til skamms tíma. Það kostar peninga að vera á mörgum stöðum og þurfa að leigja o.s.frv. þannig að það er að mínu viti skynsamlegt að ríkið eigi þær fasteignir sem það kemur til með að nota til ókominnar framtíðar eins og húsnæði sem hýsir ráðuneyti. Jafnframt segir þarna að hafnar séu framkvæmdir við viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið sem muni gjörbreyta starfsaðstöðu ráðuneytisins. Ég dreg það ekki í efa að það þurfi að bæta þessa starfsaðstöðu. Ég held reyndar að þessi framkvæmd sé ekki hafin sem slík þó að einhver fornleifarannsókn hafi farið fram á lóðinni. Þar segir jafnframt að unnið sé að framtíðarskipan húsnæðismála Stjórnarráðsins undir forystu forsætisráðuneytisins.

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirhuguð viðbygging við Stjórnarráðshúsið sé ekki falleg bygging. Það er mín skoðun. Ég veit um fleiri sem eru sammála mér í því. Ég tel yfir höfuð að við eigum ekki að vera að byggja við þetta sögufræga hús. Áðurnefndan húsnæðisvanda væri hægt að leysa með því að flytja einnig starfsemi forsætisráðuneytisins í nýja Landsbankahúsið á Austurbakka og að því yrði sómi að mínu mati. Stjórnarráðshúsið sem slíkt gæti þá áfram þjónað forsætisráðherra og ríkisstjórn og gæti orðið nokkurs konar móttökuhús forsætisráðherra. Meiri hluti fjárlaganefndar segir í nefndaráliti sínu að fullt tilefni sé til að endurskoða húsnæðiskost Stjórnarráðsins í heild sinni og ég fagna þeirri áherslu meiri hlutans og tek undir hana.

Að lokum, frú forseti, vil ég koma aðeins inn á auknar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem kveðið er á um í frumvarpinu upp á 1,8 milljarða kr. Ég tel það vera spurningu hversu skynsamlegt þetta sé á þessum tímapunkti í efnahagslífinu, hvort ríkisvaldið sé ekki að ýta undir óþarfaþenslu á þessum tímum verðbólgu. Það var nú þannig á vormánuðum að Alþingi samþykkti að hækka endurgreiðsluhlutfall framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð fyrir stærri verkefni úr 25% í 35%. Frumvarpið var jafnframt gagnrýnt af fjármálaráðuneytinu þar sem það var ófjármagnað en það fór að lokum í gegn rétt fyrir þinglok í júní. Ég tel að við eigum að spyrja okkur að því hvort fyrir liggi hverju þetta sé að skila okkur í raun. Liggja tölfræðilegar upplýsingar fyrir um það hverju þetta er að skila? Við erum að setja heilmikla peninga í þessar endurgreiðslur. Ég tek fram að ég er mjög hlynntur kvikmyndagerð á Íslandi, þeim góðu hlutum sem hafa verið gerðir í þeim efnum og sérstaklega þegar kemur að íslenskri kvikmyndagerð. En við verðum að spyrja okkur að því hverju þetta er að skila og ég held að það sé alveg eðlilegt að fyrir liggi hver ávinningurinn sé fyrir ríkissjóð. Að því hefur verið látið liggja að sum þeirra fyrirtækja sem fá stærstan hluta þessara endurgreiðslna séu þekkt fyrir að greiða lág laun og það finnst mér vera áhyggjuefni.

Ég vil kannski nefna eitt lítið dæmi, ég held að það sé alveg óhætt að segja frá því, frú forseti. Við þekkjum að um þessar mundir er verið að taka upp hér á landi þáttaröð bandarísku sjónvarpsþáttanna True Detective eins og þeir heita á ensku. Um þetta hefur töluvert verið fjallað í fjölmiðlum. Það er mikið umleikis í tengslum við þessa kvikmyndagerð og vonandi færir þetta mörgum störf. En það vill svo til að tökur, þær stóðu einhverja tvo til þrjá daga, voru stutt frá mínu heimili og svo um kvöldið, þegar ég sá að hlé var gert á tökunum og allir voru farnir, þá fékk ég mér göngutúr rétt hjá og sá að þar var einstaklingur í bifreið á svæðinu. Ég gaf mig á tal við hann og hann sagðist vera vaktmaður og kæmi til með að vakta svæðið í alla nótt. Ég spurði hann síðan að því hvað hann fengi greitt á tímann. Þá sagðist hann fá 2.500 kr. á tímann. Það verð ég að segja, frú forseti, að mér þykja það ekki há laun. Það er a.m.k. ekki verið að greiða næturvinnukaup, ég held að það sé alveg ljóst. Ég held meira að segja að þetta tímakaup nái varla lægsta taxta í dagvinnu verkafólks. Maður spyr sig því óneitanlega: Er ríkisvaldið að ýta undir iðnað sem borgar lág laun, jafnvel undir lægsta taxta? Skattgreiðendur eru alla vega, eins og ég sagði, að setja heilmikla peninga í þessar endurgreiðslur og það er því eðlilegt að það liggi fyrir hver ávinningurinn er fyrir ríkissjóð.

Að þessu sögðu held ég að heilt yfir, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, hafi þessi ágætu lög um opinber fjármál marktæk áhrif. Það eru náttúrlega liðir þarna inni, vaxtagjöldin sérstaklega og vísitöluhækkanir, sem eru náttúrlega háar upphæðir. En ef við tökum þetta frá þá eru vísbendingar um, ef við horfum á stóru myndina, stóru tölurnar, að lögin séu að virka. Mér finnst það mjög ánægjulegt. Ég hef alltaf talað fyrir ráðdeild í ríkisfjármálum frá því að ég settist hér á þing og þess vegna kom ég sérstaklega í ræðu minni inn á forstöðumenn ríkisstofnana, að mjög mikilvægt sé að þeir séu sá varnagli sem þeir eiga að vera þegar kemur að því að nýta þá fjármuni sem Alþingi hefur ætlað þeim hverju sinni í fjárlögum með þeim hætti að ekki verði um óeðlilega framúrkeyrslu að ræða. Þetta skiptir allt verulegu máli og við eigum náttúrlega öll að sameinast um að bera ákveðna virðingu fyrir fjármunum ríkisins, að þeir séu skynsamlega notaðir. Við höfum þarna stóra útgjaldaliði eins og t.d. til heilbrigðismála og það er afar mikilvægt að gagnsæi ríki um þau mál og sérstaklega þegar kemur að upphæðum sem snúa að veirufaraldrinum. Það eru mjög háar upphæðir og það var skynsamleg ákvörðun hjá ríkisstjórninni á sínum tíma að gefa það út að þessi aukni kostnaður sem féll á heilbrigðisstofnanir á landinu yrði bættur. En það má heldur ekki misnota það, ef þannig má komast að orði, af hálfu þessara stofnana, að liðir séu þá bara færðir undir þennan lið sem eru kannski afleiddir en ekki svo augljóslega í tengingu við veirufaraldurinn. Allt skiptir þetta máli í heildina.

Að þessu sögðu, frú forseti, þá tel ég að við sjáum það núna að lögin hafi marktæk áhrif. Mér finnst það vera mjög mikilvæg skilaboð í þessu frumvarpi.